Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir sýningarstjóri verður með leiðsögn um sýninguna Murr í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi sunnudaginn 23. júní kl. 15.00.
Murr er sýning á verkum íslenskra samtímalistamanna þar sem sjónum er beint að áráttukenndum vinnuaðferðum í myndlist; endurtekningum, reglum og ofureinbeitingu.
Verkin endurspegla mikla breidd í inntaki, þar sem glímt er sjálfsævisöguleg viðfangsefni, djúpstæðan sársauka og dauða, samhliða ljóðrænu hversdagsins, endurtekningum og ryðma í daglegum rútínum, óhlutbundnum formum og kerfum. Verkin eru unnin í fjölbreytta miðla; málverk, skúlptúrar, teikningar, vídeóverk og gjörningar.
Á sýningunni er velt upp spurningum um hvað fái listamenn til að vinna endurtekið að sama viðfangsefninu, oft með svipuðum hætti? Hvað fær listamenn til að setja sér reglur og fylgja þeim eftir í þaula, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár?
Sýningin Murr stendur til 8. september 2024.
Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.
Nánari upplýsingar veitir Nathalía Druzin Halldórsdóttir kynningarstjóri Listasafns Reykjavíkur.
Netfang: [email protected] / sími: 8201201.