Lucky 3: PUTI

Lucky 3: PUTI – opnunargjörningur

16.10.2021

12:00 –20:00 @ OPEN

Verkið PUTI er félagsleg kóreógrafía sem endurspeglar ofurraunveruleika kynþáttahlutverka og valdastigveldi. Verkið vitnar í átta klukkutíma vinnudag.

Þótt frásagnir okkar séu sundurleitar, er kjarninn hinn sami. Við viljum varpa ljósi á sundraðan hóp, fólk sem er rótlaust, er í stöðugri endurnýjun og berst við að bjarga arfleifð sinni í ljósi menningarlegs tjóns. Með blygðunarlausum heiðarleika og varnarleysi, tekur hópurinn á málefnum sem þessum. Í tilfelli PUTI; upplifun filippseyskra innflytjenda á Íslandi, tilfærslu og kynþáttafordóma.

Darren Mark (f. 1993) útskrifaðist með BA próf í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2017. Hann flutti til Íslands frá Filippseyjum aðeins átta ára gamall ásamt fjölskyldu sinni. Hann vinnur aðallega við fatahönnun, hann fæst við að taka í sundur og setja flíkur saman til þess að endurnýta og betrumbæta þær og búa til nýjar flíkur. Darren hefur áður sýnt á Dutch Design Week í Eindhoven, Designer’s Nest – Copenhagen Fashion Week  og á Hönnunarmars í Reykjavík.

Dýrfinna Benita Basalan (f. 1992) vinnur sem myndlistarmaður en er líka þekkt sem tónlistarkonan Countess Malaise. Dýrfinna er fædd og uppalin á Íslandi og á íslenskan föður. Hún útskrifaðist með BA í myndlist og hönnun frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2018. Dýrfinna vinnur út frá mörgum miðlum og takast verk hennar oft á um sjálfsmynd, samfélag og einsemd. Dýrfinna er partur af listamannahópnum The Blue Collective, hópur alþjóðlegra listamanna sem eru hinsegin og af jaðarsettum kynþáttahópum. Með þessum listahópi hefur Dýrfinna m.a. sett upp sýningar í Juliette Jongma gallerí, Amsterdam og í Decoratillier í Brussels í samstarfi við Living Leaving Dacota.

(IS)

Lucky 3 (st. 2019) er listahópur stofnaður af Darren Mark, Dýrfinnu Benitu Basalan og Melanie Ubaldo; íslenskir listamenn af filippeyskum uppruna.

Melanie Ubaldo (f. 1992) útskrifaðist með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Í verkum Melanie er myndefni og texti órjúfanleg heild. Sjá má sundurleit málverk sem innihalda texta sem minnir helst á veggjakrot. Textinn vísar í hennar eigin reynslu af fordómafullri hegðun annarra í hennar garð. Verkin afhjúpa valdið sem felst í fordómum og eyðandi áhrif þeirra á þolendur. Melanie hefur áður sýnt í Kling og Bang og hefur tekið þátt í öðrum hópsýningum hérlendis og erlendis til að mynda í Hafnarborg, Gerðarsafni, hátíðinni Cycle – Music and Art festival og nýlega í Pavilion Nordico í Argentínu. Jafnframt er verk hennar að finna í safneign Listasafns Reykjavíkur.

RELATED LOCAL SERVICES