Akureyrarvaka 2023

Akureyrarvaka 2023

Akureyrarvaka er árleg bæjarhátíð, haldin síðustu helgina í ágúst sem næst afmæli Akureyrarbæjar 29. ágúst. Hátíðin er full af fjölbreyttum uppákomum og upplifunum þar sem gestir og bæjarbúar njóta viðburða saman.

Viðburðadagatal hátíðarinnar er að finna á www.akureyrarvaka.is

Akureyrarbær fagnar 161 árs afmæli sínu 29. ágúst og verður því verður fagnað með ýmsu móti um helgina. Á dagskrá eru fleiri en 70 fjölbreyttir viðburðir víðsvegar um bæinn frá föstudeginum 25. til sunnudagsins 27. ágúst. Opinber heimsókn forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, skipar háan sess um helgina og hann setur meðal annars Akureyrarvöku á Rökkurró í Lystigarðinum kl. 20 á föstudagskvöld. Einnig er viðamikil afmælisdagskrá í Listasafninu á Akureyri sem heldur upp á 30 ára afmæli sitt. Fimm nýjar sýningar verða opnaðar og fjöldinn allur af uppákomum verða í safninu í tilefni afmælisins.

Í þéttskipaðri dagskrá Akureyrarvöku má meðal annars finna Draugaslóð á Harmarkotstúni, sönglagatónleika með GDRN og Magnúsi Jóhanni í Hofi, tékkneska oktettinn HLASkontraBAS í Listasafninu, götukörfuboltamót í Garðinum hans Gústa, vígslu forsetahjóna á sögustaurum, barnasöngverk með Hoðra í norðri, leiðsögn meðal huldufólks og álfa í Lystigarðinum, Sirkustóna Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Tweed ride, tónleika með Diddú og Jónasi Þóri í Hamraborg, skemmtisiglingar með Húna II, söguganga um Innbæinn og margt fleira.

Hátíðin nær hápunkti sínum þegar efnt verður til stórtónleika á Ráðhústorgi kl. 20.30 á laugardagskvöldið. Fram koma Bríet, Á móti sól, Kári Egils og hljómsveit og síðast en ekki síst Akureyringinn Hrefna Loga. Auk þeirra fá kynnar kvöldsins Jónína Björt og Ívar Helga til sín á sviðið hæfileikaríkt heimafólk sem lætur ljós sitt skína.

Undanfarin ár hefur Akureyrarvaka teygt sig yfir á sunnudag og að þessu sinni verður hægt að fara í morgunflot í sundlauginn með Flothettu, listsýningar verða opnar og leiðsagnir um fjölda sýninga í Listasafninu yfir daginn. Jafnframt bjóða tónlistarkonurnar Ásdís Arnar, Dagbjört Ingólfs og Steinunn Hailer upp á huggulega heimatónleika.

Til hamingju með afmælið Akureyri!

Gleðilega hátíð.

RELATED LOCAL SERVICES