Anna Þóra Karlsdóttir – Náttúru lega

Korpúlfsstaðir
06.07.—21.07.2024

Náttúrulega er yfirskrift sýningar Önnu Þóru Karlsdóttur sem opnuð verður á Korpúlfsstöðum laugardaginn 6. júlí klukkan 15. Sýningin er opin alla daga frá kl.13-18 og aðgangur er ókeypis.

„Inn er gengið, ljós læðist um glugga og leggst til hvílu á ullarreyfi.

Reyfin koma af fénu sem fylgt hafa okkur frá því land byggðist. Ullin er náttúran. Í hana sækjum við vernd og værð, efni og anda. Anna Þóra vinnur verk sín á eðlilegan og náttúrulegan hátt úr ullinni, tosar þel og tog úr henni á áreynslulausan hátt og beinir efninu í ákveðnar áttir í sköpun sinni.

Henni er, eins okkur flestum, eðlislægt að leita í náttúruna og endurskapa tilfinninguna um tengsl okkar við hana. Í hana sækjum við kraft okkar og séum við með skilningarvitin opin finnum við fyrir hlutdeild okkar í heiminum og tengsl okkar við allt sem er.

Verk Önnu Þóru taka á sig ýmsar myndir, ullin sem hvíldi á jörðinni lyftist upp í rýminu og efni breytist í anda. Fyrir augum okkar svífa línur, litir og form sem líða um í rýminu og beina sjónum okkar til himins og jarðar. Þó að sum þeirra sýnast við fyrstu sýn vera bundin í formi sínu eru þau, þegar betur er að gáð, án fastra útlína eða ramma. Þau leita út í rýmið og tengjast þannig umhverfi sínu og umheimi á náttúrulegan og eðlilegan hátt.

Verkin hvíla í umhverfinu og augu okkar hvíla í þeim.

Náttúru lega.“

Guðlaugur Valgarðsson, sýningarstjóri

Anna Þóra hefur fengist við myndlist og myndlistarkennslu frá því hún lauk námi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Konstfack í Stokkhólmi. Sýningin „Náttúrulega“ er tólfta einkasýning hennar. Þá hefur hún tekið þátt í um fimmtíu samsýningum síðan 1975.

Anna Þóra hefur tvisvar fengið starfslaun úr Launasjóði myndlistarmanna. Í fyrra skiptið í sex mánuði, og í seinna skiptið í tvö ár. Hún hefur einnig dvalið á vinnustofum erlendis við listsköpun sína. Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur eiga bæði verk eftir Önnu Þóru.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0