Dans formanna

Ásrún Kristjánsdóttir sýnir nú verk sem hún hefur málað á síðustu tveimur árum. Í þeim má sjá speglun af þeim strangflatarstíl sem enn hafði mikil áhrif á málaralist þegar Ásrún var að kynnast myndlist og hefja nám í Myndlista- og handíðaskólanum og þegar hún sótti framhaldsnám í Konstfackskolan í Stokkhólmi á sjöunda áratugnum. Málverkin eru leikur með einföld form, litla ferninga og ferhyrninga sem raðast upp á myndfletinum í lausum línum og klösum, renna saman í stærri form og mynda flæðandi hreyfingu á striganum. Litaskalinn er stundum þröngur og aðeins fínleg blæbrigði glæða myndina lífi en stundum teflir Ásrún djarft og ögrar okkur með sterkum, óvæntum litasamsetningum sem hoppa upp af myndfletinum. Í fyrra tilfellinu líkist hreyfingin í myndinni hægum menúett en litríkari myndirnar eru eins og æstur Charleston-dans.
    asrun kristjansdottir_MG_9266Eftir að Ásrún lauk námi í Stokkhólmi 1976 kom hún ásamt fleira myndlistarfólki að rekstri galleríanna Sólon Islandus, Langbrók og Gangskör sem öll stóðu fyrir öflugu sýningarhaldi á árum um og uppúr 1980. Ásrún fékkst þá einkum við textíl, sérstaklega silkiþrykk, og hefur lengi unnið meðfram myndlistinni að hönnun ýmiss konar og hefur verið virk í störfum að málefnum hönnuða á Íslandi. Fyrir nokkrum árum ákvað hún að einbeita sér aftur að málverkinu. Í því fólst kannski eins konar afturhvarf til námsáranna og þeirra rannsókna sem þá voru uppi um möguleika forma og lita – öguð og nokkuð formleg nálgun sem hafði ekki aðeins mikil áhrif á sköpun myndlistarmanna heldur einnig á hönnuði. Þegar Ásrún sýndi þessi málverk árið 2013 kom einmitt í ljós að hún hafði líklega aldrei hætt rannsókninni því verkin voru, líkt og málverkin sem hún sýnir núna, byggð upp af einföldum formum og líflegum litatilraunum. Í þeim mátti líka sjá handbragð hönnuðarins, eða öllu heldur vinnuflæðið sem liggur að baki góðri hönnun, hin sífellda leit að einföldum en áhrifaríkum lausnum, hin sífellda fágun og slípun viðfangsefnisins.
 _MG_9366   Verkin sem Ásrún sýnir núna eru ekki síður fáguð en í þeim er líka talsvert meiri leikur sem sprettur af öryggi hennar í meðhöndlun bæði formanna og litanna. Málverkin mynda sterkari heild, greina sig betur að hvert frá öðru og flæðið og hreyfingin í þeim frjálsari og markvissari en áður. Það kemur þannig í ljós að í réttum höndum getur þessi gamla en sígilda formlega nálgun lifnað við og talað til okkar nú, ekki síður en hún gerði fyrir fjörutíu árum.

 

     Jón Proppé

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0