Er Torfajökull næstur?

Falinn að Fjallabaki er Torfajökull. Eldstöð, þar sem næst stærsta háhitasvæði landsins er á eftir Grímsvötnum í miðjum Vatnajökli. Torfajökull hefur gosið tvisvar frá landnámi. Fyrst árið 872, árið sem hjónin Ingólfur Arnarson og Hallveig Fróðadóttir settust hér að, fyrstir landnámsmanna í Reykjavík. Sumir halda því reyndar fram að hjónakornin hafi komið tveimur árum seinna, og þá missta af gosinu. Síðan gaus aftur árið 1480, árið sem Íslendingar sendu kvörtunarbréf til Kristjáns 1. Danakonungs um að banna vetursetu útlendinga á Íslandi. Þeir stórskaði landið með því að lokka til sín vinnufólk frá sveitabæjum, þar sem bændur þurfa nauðsynlega á vinnuaflinu að halda á sínum kotum. Hrafntinnuhraun við Hrafntinnusker myndaðist í fyrra gosinu, Námshraun og Laugahraun í Landmannalaugum í því síðara.  

Nú er hafið landris undir Torfajökli, einni stærstu eldstöð landsins, og ef þar hefst gos, verður það stórt, alvörugos. Allt öðruvísi en þessi litlu fallegu túristagos sem hafa verið við Fagradalsfjall á Reykjanesi undanfarin þrjú ár. Þarna mun bæði koma upp ómæld aska sem mun dreifast um landið, eftir vindáttum, og auðvitað hraun, sem á þó langan veg frá hálendi suðurlands og niður í byggð. Beint í suður frá Torfajökli er Vík í Mýrdal, í 50 km fjarlægð, beint í austur að sjó frá Torfajökli er Fagurhólsmýri, í Öræfasveit, undir hæsta tindi landsins Hvannadalshnjúk í 120 km fjarlægð. Beint í norður frá Torfajökli er Siglufjörður í 250 (252) km fjarlægð, beint í vestur endar maður á Keflavíkurflugvelli í 170 km fjarlægð. Mörg stórar eldstöðvar, eldfjöll eru í næsta nágrenni við Torfajökul. Katla er í 30 km fjarlægð, Eldgjá 20 km frá jöklinum, og Laki er 75 km í burtu.

Á þessu nýja korti af Torfajökli frá Veðurstofu Íslands, sést vel landrisið, rautt á mynd

Torfajökull í sumarbúningi

Margar ár og lækir renna frá Torfajökli, eins og þessu við rætur eldfjallsins, þarna verða flóð, ef eða þegar fer að gjósa

Torfajökulssvæðið er mjög litríkt

Laugahraun myndaðist frá gosinu  frá 1480 (sumir segja 1477)

Ljósmyndir & text : Páll Stefánsson

Reykjavík 16/08/2023 : A7R IV : FE 1.8/135mm GM, FE 1.8/20mm G, FE 1.2/50mm GM