Listasafn ASÍ
11. október til 2. nóvember 2014

Erla S. Haraldsdóttir
Hvassast-Hallgerdur

Laugardaginn 11. október kl. 15:00, verður opnuð í Listasafni ASÍ sýning á málverkum Erlu S. Haraldsdóttur sem hún nefnir  „Visual Wandering“ eða Sjónrænar göngur

Verk Erla S. Haraldsdóttir eru spunnin úr þremur meginþáttum; ljósmyndaraunsæi,  góðum tökum á aðferðum málverksins og kímni.  Samþætting aðferða sem byggja á forsendum hugmyndalistarinnar við lifandi litaspjald og kröftuga pensilskrift  gerir sýningu hennar að einstakri rannsókn á myndefni og  tækni, grundvallaða á frelsinu sem leynist í fyrirstöðunni.  Á sýningunni eru ellefu stór málverk frá árunum 2012 – 2014. Myndefnin eru ýmist valin samkvæmt kerfi þar sem tilviljunarkenndir staðir úr ákveðnum sögum eru afmarkaðir eða eftir fyrirmælum annarra.
Erla er menntuð í málaralist og hefur undanfarin ár lagt stund á hlutbundið málverk. Í verkum hennar er efniskennd litarins og eiginleikar hans til að skapa rými, ljós og skugga mikilvægt atriði.  Sjálf aðferðafræðin er áhrifavaldur í vinnuferlinu og listamaðurinn kannar hvernig minningar, tilfinningar og sjónræn skynjun hafa áhrif hver á aðra.  Erla hefur áður notað teiknimyndir, myndbönd og samsettar ljósmyndir til að nálgast og endurskapa veruleikann.
Erla haraldsdóttirErla S. Haraldsdóttir býr í Berlín en á Íslandi er hún best þekkt fyrir ljósmyndasamsetningar eins og Here, there and everywhere,  lagskiptar teiknimyndir eins og Sad with Satie og Reynisdrangar,  flókin samstarfsverkefni eins og M:E:E:H. í Sjálfstæðu Fólki á Listahátið Reykjvíkur 2012 og Difficulty of Freedom/Fredom of Difficulty,  verkefni sem bæði var kynnt í Nýlistasafninu 2013 og Verkligheten í Umeå, Svíþjóð 2014. Næstu verkefni listamannsins  eru m.a.  einkasýning í Pszczyna kastala í Pszczyna,  Póllandi í nóvember, sýningarstjóri er Stanislaw Ruksza og er sýningin hluti af verkefninu  A place where we could go. Í  febrúar 2015 verður Erla með á opnunarsýningu  hins nýja Silesian listasafns í Katowice, Póllandi en það er byggt yfir gamla kolanámu.
tunnelvision-Erla HaraldsErla S. Harladsdóttir er menntuð við Listaháskólann í Stokkhólmi, The San Franscisco Arts Institute og hún útskrifaðist frá Listaháskólanum Valand í Gautaborg  1998. Verk hennar hafa verið sýnd víða, m.a.  í Berlinische Galerie í Berlín, The Scandinavia House,  New York,  Moderna Museet í Stokkhólmi, Kunstlerhaus Bethanien,  Berlín og Kronika Bytom, Póllandi.
Verk eftir hana eru m.a. í eigu Listasafns Reykjavíkur, Moderna Museet  og National Public Art Council í Svíþjóð.
Erla hefur stjórnað vinnustofum (workshops) í listaháskólum á Norðurlöndum og Karabíska hafinu og hún er sem stendur gestakennari við Listaháskólann í Umeå.
Nánari upplýsingar: www.haraldsdottir.com

Sýningin er opin alla daga nema mánudaga frá kl. 13 til 17 og aðgangur er ókeypis.

Freyjugötu 41, 101 Reykjavík, s. 511 5353, www.listassafnasi.is, [email protected]

Hallgerður Hallgrímsdóttir

HVASSAST ÚTI VIÐ SJÓINN

Listasafn ASÍ

Laugardaginn 11. október kl. 15 opnar sýningin Hvassast úti við sjóinn í Listasafni ASÍ.

Hvassast úti við sjóinn er rannsókn á íslenskum hversdegi. Samansafn eilífra augnablika, fjalla sem ekki gjósa, endurtekinna daga og óræðra andlita. Hinn skáldaði raunveruleiki er leikfang ljósmyndarans. Ljósmyndin er ekki svar, hún er tillaga. Þetta er samansafn tillaga. Tillaga sem sýna fast land og breytilegt, áferðir, skýjafar og svefnóra. Sýna fábrotnu kyrrðina og fólkið sem í henni býr. Við erum viðkvæm í návígi við alla þessa náttúru og ónáttúru, sem við sveipum okkur í. Eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Sýningin samanstendur af fjórum verkum þar sem ljósmyndir, texti og fundið efni draga saman fram hljóðláta og gleymda fegurð hversdagsins. Myndirnar voru teknar víðsvegar um Ísland, frá Bakkafirði til Voga á Vatnsleysuströnd, á fjallstindi og við fjöruborð.

Hallgerður Hallgrímsdóttir (f. 1984) lauk námi í Fine Art Photography við Glasgow School of Art árið 2011 og hefur síðan unnið að myndlist sinni og meðal annars sýnt í The Photographer’s Gallery í London, Hasselblad Center í Gautaborg og á myndlistarhátíðinni Glasgow International. Einnig tók hún þátt í þverevrópska verkefninu European Borderlines en afrakstur þess var sýndur í Norræna húsinu.

Hallgerður notar ljósmyndamiðilinn á afgerandi hátt en í verkum hennar er mikið lagt upp úr úrvali og samsetningu mynda. Þannig spila myndirnar saman og skapa heild eða sögu, einskonar collage. Hallgerður heillast af hversdagslegri fegurð og beinir gjarnan sjónum að hinum ómikilfenglegu augnablikum lífsins.

hallgerdur.com
[email protected]

Sýningin stendur til 2. nóvember.
Safnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 13 til 17 og aðgangur er ókeypis.

Listasafn ASÍ, Freyjugötu 41, 101 Reykjavík,

s. 511 5353, www.listassafnasi.is, [email protected]