Fimmtíu og fimm ár af fegurð

Fimmtíu og fimm ár af fegurð

Um daginn, voru liðin 55 ár, síðan Norræna Húsið opnaði í Reykjavík. Norræna húsið, fyrsta sameiginlega menningarhús Norðurlandanna var teiknað af einum fremsta arkitekt í heimi, finnanum Alvar Aalto (1898-1976). Húsið er staðsett í Vatnsmýrinni, ekki langt frá aðalbyggingu Háskóla Íslands. Norræna Húsið er einstök menningarstofnun sem er rekin af Norrænu ráðherranefndinni, og hefur frá upphafi markað sér sérstöðu í íslensku menningarlífi. Í húsinu er stærsta bókasafn í heimi, eingöngu með norrænar bókmenntir, á tungumálum frá grænlensku í vestri, finnsku í austri og samísku í norðri, og síðan auðvitað á norðurlandamálunum öllum, íslensku, færeysku, norsku, dönsku, og sænsku. Í húsinu er síðan frábært barnabókasafn, kaffihús, sýningarsalur (sem var lokaður, er verið að setja upp nýja sýningu) og tónlista og ráðstefnusal fyrir fundi og viðburði. Alvar, teiknaði ekki bara húsið, hann hannaði innanstokksmuna í það líka, eins og húsgögn, lampa og ljós, jafnvel bronshöldurnar á dyrunum. Mörgum finnst húsið, að innan sem utan, ein fegursta bygging á Íslandi, en eitt er víst, það sem er gert og hefur verið gert í húsinu, hefur verið lyftistöng fyrir okkar menningarlíf, og kynnt okkur enn betur fyrir menningu og mannlífi hjá frænd- og vinaþjóðum okkar í meira en hálfa öld. 

Norræna húsið…. það var svolítið erfitt að mynda það, það standa yfir viðgerðir á ytra byrði hússins
Útsýnið frá inngangi norræna hússins, í átt að miðbænum og Hallgrímskirkju til hægri 
Bókasafnið
Þúsundir bóka, frá norðurlöndunum eru á bókasafninu
Húsgögn og ljós, hönnuð af Alvar Aalto, hönnuði hússins
Barnabókasafnið… heill heimur fyrir börn og fullorðna
Sýningin Grímur í anddyri hússins, eftir norsku myndlistarmennina, Göran Ohldieck og Kjetil Berge

Ljósmyndir & text : Páll Stefánsson

Ísland 24/09/2023 : A7C, RX1R II : FE 1.8/20mm G, 2.0/35mm Z