Gata Ingólfs

Gata Ingólfs

Fyrsti íbúi Íslands og Reykjavíkur, Ingólfur Arnarson, kom hingað frá Noregi og settist hér að árið 874. Hann hafði komið til Íslands sjö árum áður til að kanna aðstæður, sem varð til þess að hann ásamt systur sinni og fjölskyldum og þrælum fluttust alfarið til Íslands. Á Arnarhóli, í hjarta höfuðborgarinnar stendur stór stytta af Ingólfi, þar sem hann horfir í vestur, yfir kvosina og Reykjavíkurhöfn. Styttan sem er eftir Einar Jónsson (1874-1954) var afhjúpuð árið 1924. Bak við styttuna af Ingólfi er síðan Ingólfsstræti, kennt við landnámsmanninn. Gatan, þegar hún fær nafn, árið 1880 nær þó aðeins frá Bankastræti og suður að Spítalastíg. Það var ekki fyrr en 1915, þegar byggð er farið að þéttast í Skuggahverfinu, að gatan er lengd frá Bankastræti og fram hjá Arnarhóli í norður og í sjó fram þar sem hún mætir Skúlagötu. Mörg merk hús eða stofnanir standa við Ingólfsstræti, eins og Seðlabanki Íslands, Fjármálaráðuneytið, Hæstiréttur, og Safnahúsið, en ekkert þeirra ber húsnúmer frá götunni. Gamla Bíó, eitt elsta kvikmyndahús landsins, var reyst árið 1927, stendur þó við Ingólfsstræti. Enn í dag, næstum hundrað árum seinna, er byggingin ein af hornsteinum í menningarlífi Reykjavíkurborgar. Við Ingólfsstræti er í dag, ein af örfáum matvöruverslunum í miðbænum, auk þess er við götuna, ein kirkja og fjöldi öldurhúsa, enda má segja að Ingólfsstræti, liggi í miðjum miðbænum, þangað sem ferðamenn og heimamenn sækja bæði í menningu og mat.   

 

Ingólfur á Arnarhóli
Horft inn í nyrsta hluta Ingólfsstrætis milli Seðlabanka Íslands til hægri og center hotels til vinstri
Horft í suður eftir Ingólfsstræti, Seðlabanki Íslands til hægri, Arnarhóll á miðri mynd
Gamla Bíó í miðri götunni
Prikið, vinsæll veitingastaður sem hefur starfað í meira en 70 ár, hér á horni Ingólfsstrætis og Bankastrætis
Horft norður Ingólfsstrætið, mjög svipsterk, öðruvísi gata
Fataverslun með notuð föt við Ingólfsstræti
Stúlkur frá Tævan að kaupa sér nesti
Syðsta húsið í götunni, Norðurberg byggt árið 1887 á horni Ingólfsstrætis og Spítalastígs

Ljósmyndir & text : Páll Stefánsson

Reykjavík 16/10/2023 –  A7C, RX1R II : FE 1.8/14mm GM, 2.0/35mm Z