Goslok í nánd?

Gígurinn við Litla-Hrút sem er fjallið í bakgrunni

Gosið nú við Litla-Hrút, við Fagradalsfjall, er orðið stærra en gosið í fyrra, en hraunið er nú 1,5 ferkílómetrar að flatarmáli, sem er samt aðeins einn tíundi af gosinu 2021. Mjög hefur dregið úr gosinu síðustu daga, svo flestir eldfjallafræðingar spá því að því ljúki hugsanlega á næstu tveimur vikum. Þá er bara spurningin hvar og hvort þessi goshrina á Reykjanesi sé rétt að byrja. Að við fáum annað gos á svæðinu fljótlega. En það eru fleiri eldstöðvar sem eru vaktaðar. Þorvaldur Þórðarson, einn okkar fremsti eldfjallafræðingur, vill að Öskju (milli Mývatns og Vatnajökuls) verði lokað strax, vegna hættu á stóru öskugosi, en land hefur risið við Öskju um 60 cm síðan í ágúst 2021, eða 3 cm á mánuði, sem er mikið. Bendir Þorvaldur á að landrisið sé á litlu dýpi, svo eldgos þarna gæti hafist mjög snögglega. En Askja, fjarri alfaraleið er mjög vinsæll áfangastaður ferðamanna yfir sumarið og langt fram á haust. Hann segir það ekki ásættanlega áhættu að ferðamenn séu á svæðinu eins og ástandið er. Eftir helgi (í annarri viku ágúst) munu Almannavarnir funda um ástandið við Öskju, og hugsanlegar lokanir. Eins er mikil vöktun á Bárðarbungu í Vatnajökli, og Kötlu í Mýrdalsjökli, kraftmikil eldfjöll sem gætu bært á sér fljótlega.

Glóandi hraun á Reykjanesi

Holuhraun sunnan við Öskju 2014

Dyngjufjöll í bakrunni, verður næsta eldgos þar?

Dyngjufjöll, sem umvefja eldstöðina Öskju í bakgrunni

Eldgos í Holuhrauni. Holuhraun september 2014

Ljósmyndir & text : Páll Stefánsson

Ísland 02/08/2023 : RX1R II : 2.0/35mm Z