Í birtu daganna

Málverk og teikningar Ásgríms Jónssonar

Sýningartími 1.2.2015 – 15.9.2015, Safn Ásgríms Jónssonar

Verk Ásgríms Jónssonar (1876-1958) spanna langt tímabil í sögu þjóðarinnar. Tíma sjálfstæðisbaráttu og átakatíma þegar sveitasamfélagið er að leysast upp og Reykjavík að verða borgarsamfélag. Túlkun þess séða og óséða, landslag og sagnaarfur var hans meginviðfangsefni í gegnum allan ferilinn sem spannar fyrri hluta tuttugustu aldar. Málverk hans og teikningar endurspegla einlæga ást til lands og þjóðar. Val verkanna á sýningunni endurspeglar breiddina í viðfangsefnum listamannsins. Nánar

asgrimurLI_00166Sýningin er á heimili og vinnustofu listamannsins við Bergstaðastræti 74. Opnunartími fram til 15. maí er á sunnudögum frá kl. 14:00–17:00. Hægt er að bóka leiðsögn samkvæmt samkomulagi í síma 515 9600 og 515 9625.

Í BIRTU DAGANNA –Ásgrímur Jónsson
Portrett af Ásgrími JónssyniFrá því Ásgrímur steig um borð í póstskipið Lauru 1897 og sigldi til Kaupmannahafnar frá Bíldudal þá rúmlega asgrimurLIAJ_00039tvítugur að aldri má fylgja honum í málverkum hans. Sjá heiminn í því ljósi sem hann bregður upp, hvort heldur er á sumarbjörtum degi eða í frosthörkum vetrarins. Við kynnumst ótta hans og þrám í gegnum myndgerðar þjóðsögur af draugum, tröllum og álfum þar sem ákveðin augnablik sagnanna eru viðfangsefnið. Allt frá því nátttröllið kemur á gluggann og draugar og uppvakningar gera vart við sig. Íslensk nátttúra birtist okkur í ótal blæbrigðum birtu og lita sem líkja má við áhrifamiklar tónsmíðar sem láta engan  ósnortinn. Safaríkir litirnir í málverkinu af hlaðinu við Háamúla í Fljótshlíð kallast á við harmóníska liti; rauðra og blárra tóna í kvöldsólinni í Reykjavík. Við tengjumst listamanninum þar sem við setjum okkur í spor hans við Elliðaárvoginn og sjáum skugga hans falla á snjóinn í daufri vetrarsólinni.

Frásögnin er margslungin og undir yfirborðinu leynast sterkar tilfinningar þar sem kallast á ótti og yfirvegun. Ótal skissubækur vitna um fjörlegt ímyndunarafl listamannsins og tilraunir til að formgera lifandi frásögn. Listamaðurinn horfir einnig inn á við er hann málar að Húsafelli. Þar málar hann kræklóttar birkihríslur andspænis óblíðum náttúruöflunum en í bréfum sínum hafði hann líkt þeim við mannfólkið og harða lífsbaráttu þess. Ógnvænleg náttúruöflin taka síðan völdin í málverkum sem sýna menn og dýr á flótta undan eldgosi eða jökulhlaupi sem vísar í kraft og eyðingarmátt náttúrunnar.

Listasafn Íslands, Fríkirkjuvegi 7, 101 Reykjavík | Sími 515-9600