Ljómandi fylgihlutir frá Tíra

Í öllu því myrkri sem við búum við á veturna, reynist erfitt að fá okkur til að nota endurskinsmerki. Við hengjum þau á úlpur barnanna okkar, töskurnar þeirra og hjólin og hleypum þeim ekki út fyrr en þau endurskína í bak og fyrir. Sjálf förum við svartklædd og endurskinslaus út í myrkrið afþví við viljum ekki vera púkó með eitthvert plastdrasl hangandi utan á okkur._MG_3943
En hugvitið lætur ekki að sér hæða. Listakonan Alice Olivia Clarke hefur hannað ljómandi fylgihluti sem eru svo fallegir að enginn þarf að hika við að hengja þá á sig til að vera sýnilegur í myrkrinu. Hún hefur hannað prjónabönd á handleggi og ökkla, hekluð blóm til að hengja í barminn, bönd til að hengja á veski, töskur, vasa, hettur og virkilega flottar prjónaðar hálsfestar með hnöppum á endunum. Hönnunin hefur hlotið heitið Tíra – Ljómandi Fylgihlutir. Efnið í skartinu eru lopi og endurskinsþráður. Þegar Alice er spurð hvað hafi verið kveikjan að skartinu, segir hún:
_MG_3958_MG_3961_MG_3957„Hugmyndin kviknaði fyrir fjórum árum þegar ég var næstum búin að keyra niður mann í myrkrinu. Hann var svartklæddur að ganga um illa upplýsta götu. Þegar ég svo kom í miðbæinn og leit í kringum mig, rann upp fyrir mér að það væru bara allir svartklæddir. Og það var enginn með endurskinsmerki nema börn og eldra fólk. Ég fór að velta fyrir mér hvernig ég gæti verið sýnilegri í skammdeginu.  Ég vildi vera með fallegt prjónað eða heklað skart á jakkanum mínum. Ég var alveg viss um að hægt væri að hanna fallega fylgihluti sem konur vildu bera.
_MG_4051Fyrst kom blómið. Ég og tengdamóðir mín vorum til að byrja með bara tvær í framleiðslunni en síðan hef ég bætt við tveimur handverkskonum. Lopinn var alveg tilvalið garn til að vinna með og við heklum endurskinsþráðinn með lopaþræðinum. Ég vildi að hann endurkastaði birtunni alla leið, ekki bara á yfirborðinu. Það má segja að þetta hafi orðið að eins konar fjölskylduiðnaði vegna þess að maðurinn minn hannaði lógóið og pakkningarnar og dóttir okkar gerði allar teikningarnar sem eru á pakkningunum.“
Næst komu böndin sem hægt er að vefja um fótleggi, eða handleggi, um hálsklútinn, trefilinn, veskið eða bakpokann. Alice fékk Glófa til að prjóna böndin og inni í þeim er endurskinsspjald, auk þess sem þau eru prjónuð úr lopa og endurskinsþræði. Á endunum er endurskinsleður.
_MG_4052Á eftir böndunum komu svo fallegu hálsfestarnar. Alice segist hafa gert þær nógu langar til að hægt sé að nota þær yfir hvaða jakka, úlpur og kápur sem er. Hnappana og hólkana, sem eru úr endurunnu efni, flytur hún inn. „Það er ekki hægt að fá þá hér,“ segir hún og bætir við. „Það er stefna Tíra að vera með allt íslenskt sem hægt er að fá og styðjast við íslenskar hefðir. Þegar við hönnuðum t.d. hólkana sem eru búnir til úr endurunnu gúmmíi, var stuðst við form skúfhólkanna sem eru á upphaflega íslenska búningnum.  Þannig blöndum við saman því hefðbundna og nútímalega, sem er líka stefna okkar.“
_MG_4045Nýjasta afurðin frá Tíra er marglit hálsfesti með endurskinsþræði. Þar vinnur Alice út frá litum íslensku fuglanna; lóu, spóa, óðinshana og maríuerlu. Einlitu festarnar fást í flestum þeim litum sem lopinn er framleiddur úr.
Þótt Alice hafi eytt lunganu úr síðustu fjórum árum í ljómandi fylgihlutina, er hún þó þekktust fyrir mósaíkverk sín. Verk hennar er að finna á vegg Bókasafns Hafnarfjarðar, í veitingahúsinu sem áður hét Óliver, veitingahúsinu Vegamótum, Dýraspítalanum í Grafarvogi og nú er hún að ljúka við verk í Safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju. Það verk hefur hún unnið á s.l. þremur árum með næstum þrjú hundruð fermingarbörnum. Hvert barn gerir eitt lauf, en sjálf gerði Alice trjástofninn sem er kross.
Í dag opnar hún svo hönnunarmarkað í vinnustofu sinni í Dvergshúsi á horni Lækjargötu og Brekkustígs í Hafnarfirði. „Þetta er rúmgott húsnæði og ég hef boðið tíu til tólf öðrum hönnuðum að vera með mér. Við verðum með jólabasar frá eitt til sex á laugardögum fram að jólum og á staðnum verður lifandi tónlist á milli hálf fjögur og fimm. Svo verður auðvitað heitt kakó og kaffi á könnunni.
www.aok.is