Kvöldgangan: Reykjavík sem ekki varð

Reykjavík sem ekki varð er yfirskrift kvöldgöngunnar fimmtudaginn 3. ágúst n.k. Í göngunni verður stiklað á byggingarsögu nokkurra opinbera bygginga sem risu í miðbænum með áherslu á það sem ekki varð.

1955-1964
Stytta af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli. Arnarhváll, Arnarhvoll.

Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur og Guðni Valberg arkitekt fjalla um þær opinberu byggingar sem til umræðu var að reisa við Arnarhól en það getur talist nokkuð merkilegt að tekist hafi að standa vörð um þetta eftirsótta græna svæði í miðborginni.

Gangan hefst fyrir framan Menningarhús Grófinni en þaðan verður gengið á Austurvöll og Alþingisbyggingin rædd. Á leiðinni frá Austurvelli að Arnarhóli þar sem göngunni lýkur verður fjallað um byggingarsögu Þjóðleikhússins. Á hólnum verður svo rætt um skipulag opinberra bygginga á Arnarhóli frá 1906, hugmyndir um Háskóla Íslands á Arnarhóli og deilur um byggingu seðlabanka.

Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur og Guðni Valberg arkitekt eru höfundar bókarinnar Reykjavík sem ekki varð sem kom út árið 2014 og vakti mikla athygli.

Anna Dröfn er aðjúnkt og fagstjóri við Listaháskóla Íslands og Guðni Valberg er einn af eigendum arkitektastofunnar Trípóli.

Lagt verður af stað úr Grófinni milli Tryggvagötu 15 og 17 kl. 20:00. Gangan tekur um það bil eina og hálfa klukkustund og hentar öllum.
Leiðsögnin fer fram á íslensku.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Meðfylgjandi ljósmynd tók Gunnar Rúnar Ólafsson.