Borghildur Óskarsdóttir: Aðgát

Borghildur Óskarsdóttir (f. 1942) á merkan listferil að baki sem spannar um sex áratugi. Hún er enn að því listin er samofin lífi hennar og starfi.

Á sýningunni er varpað ljósi á frjóan og marþættan ferill hennar, listnálgun og verk, en samhliða sýningunni er gefin út vönduð bók þar sem verk hennar eru sett í samhengi við listir og fræði, sögu og samtíma.

Verk Borghildar eiga erindi við samtímann, sem einkennist af viðleitni til að endurhugsa þau spor sem maðurinn hefur markað í náttúruna, himinn og jörð með lífríki sínu öllu. Umhverfisverk hennar standa þegar í náttúru landsins og má þar nefna verkið Flæðisker (1998), þar sem orðið „náttúra“ er steypt stórum stöfum og lagt í fjöru við Skerjafjörð. Verkið er nú horfið undir sand og sjó – náttúran tók það til sín. Annað viðamikið verk Þræðir á landi (2014) er að finna við sjö bæjartóftir í Landsveit og á Rangárvöllum; steyptar töflur þar sem greypt er ættarsaga fólksins sem á bæjunum bjó. En Borghildur fjallar þar um sögur raunverulegs fólks í baráttu við náttúruöfl og mannanna lög sem tengja okkur við rætur lands og fólks – arfleið okkar og framtíð.

 

Farteski – art, 1993.
Farteski – vængur, 1993.

Borghildur vinnur verk sín í fjölbreytilega miðla listsköpunar; grafík, teikningu, texta, málverk, höggmyndir, ljósmyndun, vídeó, hljóð, bókverk, innsetningar, gjörninga og þannig mætti telja áfram. Enginn efniviður eða leið til framsetningar myndverka er henni óviðkomandi. En leirinn sem efniviður, sem og glerið, ganga eins og rauður þráður í gegnum verk hennar. Leir og gler er allt frá því að vera efniviður í sjálfsmyndum hennar (1983) – þrungnar melankólíu á milli ljóss og myrkurs – auk fjölda annarra höggmynda, yfir í viðamikla innsetningu Þjórsá (2018) þar sem hún fleytir fínlegum grænbláum leirskálum út í stórfljótið eftir að hafa stillt þeim upp í bæjartóftum forfeðra sinna og mæðra, sem standa þar sem fyrirhuguð Hvammsvirkjun á að rísa. Ker og skálar geta táknað hið kvenlega og með alúð sveipar hún landið og langa menningarsögu íslensks almúgafólks kvenleika líkt og landgyðja til að lækna sárin sem rótgróin og valdbundin feðraveldishugsun hefur skapað. Móðurjörð, með sínu viðkvæma vistfræðilega samhengi sem gefur líf, er ítrekað teflt saman við föðurlandið í verkum hennar.

Verk Borghildar eru á lúmskan hátt há-pólitísk og snerta á brýnum málum íslensks samfélags, sögu og menningu, allt frá viðkvæmri stöðu kvenna innan feðraveldis til brothættrar stöðu landsins sem við fengum í arf. Hún hefur einstakt lag á að miðla í verkum sínum sárum sem gróa ekki svo auðveldlega þó margreynt sé að vefja þau umbúðum, breiða yfir og þagga; melankólía í skugga valdbundinnar mismununar kynja, hráslagalegir hrakningar fjölskyldna á milli bæja, stórbrotin umbreyting lands og útþurrkun menningararfleiðar í þágu stóriðnaðar. Sárin sem hún setur fingur á eru enn ógróin og þarfnast aðgátar, umönnunar og opinnar umfjöllunar svo að samfélagið geti tekið farsæl skref inn í framtíðina.

 

Borghildur á vinnustofu sinni.

Um er að ræða afrakstur rannsóknarvinnu Aðalheiðar Lilju Guðmundsdóttur en Listasafn Reykjavíkur hlaut Öndvegisstyrk Safnaráðs árið 2021 til þess að rannsaka hlut kvenna í íslenskri myndlist í samstarfi við námsbraut í listfræði við Háskóla Íslands. Sýningin er önnur af þremur en við upphaf árs 2023 opnaði vegleg sýning á verkum Hildar Hákonardóttur á Kjarvalsstöðum sem var afrakstur rannsóknar Sigrúnar Ingu Hrólfsdóttur.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0