Gallerí Fold kynnir einkasýningu listakonunnar Línu Rutar Wilberg – Fiðrildaáhrif.
Sýningin opnar á Menningarnótt, laugardaginn 19. júní kl. 15.
Lína Rut Wilberg er fædd á Ísafirði árið 1966. Hún hefur málað, teiknað og skrifað sögur frá því hún man eftir sér. Árið 1987 lærði hún listförðun í París og opnaði í kjölfarið fyrsta förðunarskólann á Íslandi. Í París kviknaði áhugi hennar á myndlist og útskrifaðist hún úr málaradeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands árið 1994. Árið 1995 hélt hún svo til Flórens á Ítalíu á námskeið í meðferð pappamassa í þeim tilgangi að geta búið til fylgihluti fyrir förðunarmyndatökur.
Lína Rut hefur notið mikilla vinsælda sem myndlistarmaður fyrir hinn litríka og skemmtilega ævintýraheim sem hún skapar með verkum sínum. Þar birtast ýmsar skrautlegar verur, meðal annars Krílin sem margir þekkja. Lína Rut á tvo syni með fötlun sem báðir haft mikil áhrif á listsköpun hennar, það eru þeir Már sem er blindur og Nói sem er einhverfur. Þegar það kom í ljós að Már var blindur, rifjaði Lína Rut upp pappamassanámið frá Flórens og hóf að gera skúlptúra sem hún nefndi Krílin, eitthvað sem Már gæti þreifað á og þar með upplifað list hennar og ævintýraheim, líkt og þeir sem sjáandi eru. Lína Rut gerir einnig blind Kríli, þau gerir hún sérstaklega fyrir Blindrafélagið þar sem þau eru seld til styrktar blindum og sjónskertum. Þegar Lína Rut tók þátt í sýningunni List án landamæra í Duus húsi í Reykjanesbæ hófst svo samvinna hennar og Nóa. Lína Rut tók fígúrur sem Nói hafði teiknað og blandaði við sínar fígúrur. Hún þróaði svo þessa hugmynd og samvinnu áfram og afrakstur hennar má meðal annars sjá á þessari sýningu hér; Fiðrildaáhrif.
Um sýningu sína Fiðrildaáhrif segir Lína Rut m.a. „ Líta má á list mína sem ferðalag, litað bæði af áföllum og gleði. Ég sé fyrir mér gjörðir og tilfinningar sem eru tengdar á ósýnilegan hátt, um leið eru þær flæktar inn í daglegt líf okkar. Smátt og smátt hleðst eitthvað upp innra með okkur, eitthvað sem erfitt er að henda reiður á eða nefna og á örskotssundu getur öll tilvera okkar kollvarpast. Vængjasláttur fiðrildis getur valdið ringlureið sem hefur áhrif á nálæg laufblöð, blóm og önnur fiðrildi og jafnvel valdið stormi víðsfjarri. Líkt og fiðrildaáhrifin, geta ótengd atvik og tilfinningar tengdar þeim haft stórvægilegar afleiðingar í lífi hvers og eins. Þau geta borið í sér þann kraft að umbreyta manneskju algjörlega, bæði andlega- og líkamlega og hafa áhrif á allt umhverfis hana. Hvernig finnum við leið til að lifa með áföllunum og gleðinni sem innra með okkur býr? Minningunum um allt sem var og þá mögulegu framtíð sem þær eitt sinn áttu. Gærdagurinn skapar daginn í dag, dagurinn í dag sigrar gærdaginn og skorar jafnframt á morgundaginn og alla möguleika hans.“
Lína Rut hefur gefið út þrjár barnabækur. Hún hefur sýnt víða hérlendis og erlendis, síðast í Sendiráðinu í London 2017. Þetta er fyrsta einkasýning Línu Rutar á Íslandi í átta ár.
Í tilefni af opnun sýniningarinnar ætlar Már sonur Línu Rutar að flytja nokkur lög í Gallerí Fold. Már er vel þekktur fyrir íþróttaafrek sín í sundi auk þess sem hann sló í gegn í Söngvakeppni Rúv 2022, ásamt Ísold systur sinni, með laginu Don´t you know. Már dvelur um þessar mundir í London þar sem hann stundar nám í tónlist.
Sýningin stendur til 2. september nk.
Opið er í Gallerí Fold á Menningarnótt frá kl. 12-19. Öll velkomin.
Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg mán-fös 10 – 18 og laugardaga 10 – 16.