Gallerí Fold – Sögur af Hvítabirni

Gallerí Fold
Lýður Sigurðsson – Sögur af Hvítabirni
14. október – 4. nóvember

Gallerí Fold kynnir einkasýningu myndlistarmannsins Lýðs Sigurðssonar Sögur af Hvítabirni.

Lýður Sigurðsson opnar einkasýningu sína Sögur af Hvítabirni í forsalnum í Gallerí Fold við Rauðarárstíg, laugadaginn 14. október n.k. kl. 14. Þar skyggnist listamaðurinn inn í heim bernsku sinnar þar sem óbeislað ímyndunaraflið skóp furðuverur og dýrslega leikfélaga, fékk þeim hlutverk á mörkum drauma og veruleika. Leiðtoginn í hópnum er Hvítibjörn og hefur hann fylgt listamanninum í áratugi.

Lýður fetar hér þröngan stíg á milli raunsæis og nákvæmni og súrealískra kringumstæðna, með vísunum í þekkt augnablik listasögunnar, barnabækur, dægurmenningu síðustu áratuga, ferðaþjónustu, sem og hefðbundin gildi fjölskyldufólks. Sýning hans er heillandi ævintýraheimur fyrir alla aldurshópa.

Lýður Sigurðsson er fæddur árið 1952 á bænum Glerá í Kræklingahlíð við Akureyri. Hann er húsgagnasmiður að mennt frá Iðnskólanum á Akureyri, en sótti einnig ýmis myndlistarnámskeið í Myndlistarskólanum á Akureyri. Síðar stundaði hann nám við Myndlistarskólann í Reykjavík, m.a. undir leiðsögn Hrings Jóhannessonar. Myndir Lýðs hafa vakið óskipta athygli í gegnum tíðina og verið sýndar á fjölda einkasýninga sem og á samsýningum undanfarna fjóra áratugi. Lýður starfaði lengi vel sem leikmunasmiður (formlistamaður) í Þjóðleikhúsinu. Hann sýndi fyrst í Gallerí Fold árið 1998 og aftur árið 2001. Sögur af Hvítabirni er því þriðja einkasýning hans hér í Galleríinu.

Á sýningunni eru bæði skúlptúrar og málverk. Samhliða sýningunni kemur út bók með verkunum þar sem greint er frá forsögu Hvítabjarnar og annarra furðuvera og tengsl listamannsins við þær.

Sýningin opnar 14. október og stendur til 4. nóvember.

Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg
mán-fös 12 – 18 og laugardaga 12 – 16.

RELATED LOCAL SERVICES