Tindar

Sindri Matthíasson sýnir olíu- og akrýlmálverk af íslensku landslagi. Ferðalög um Ísland hafa veitt Sindra mikinn innblástur og síðastliðinn áratug hefur hann tekið ótal ljósmyndir og málað eftir þeim. Markmiðið er að fanga ákveðið augnablik s.s. sjóndeildarhringinn við sólarupprás eða sólsetur sem er engu líkt hér á landi.

Ungur að aldri fór Sindri á námskeið í akrýlmálun og hóf í kjölfarið að þróa fjölbreytta myndlist. Rúmlega tvítugur tók hann upp á því að mála utandyra og sækja innblástur í íslenska náttúru og málverk eftir langafa sinn, listamanninn Matthías Sigfússon (1904-1984). Sindri lærði grafíska prentun og hönnun í Kaupmannahöfn og hafði að námi loknu mótað sér skýrari stefnu hvað myndlistina varðaði. Hann sneri heim til Íslands með nýjar hugmyndir og þekkingu í farteskinu og lærði meira um akrýlmálun hjá listamanninum Ingimari Ólafssyni Waage.

Eftir nám skráði Sindri sig í myndlistarfélagið Litku og tók þátt í samsýningum með félaginu í Ráðhúsi Reykjavíkur, Hörpu og Art 67. Hann hefur haldið einkasýningar á Eldofninum, Lucky Records, Café Mílanó, Núllinu Gallerý og nú síðast í Brauðhúsinu í Grímsbæ.

Sýningin fer fram í fjölnotasal aðalsafns og stendur til 31. mars.

RELATED LOCAL SERVICES