Finleif Mortensen – Tað figurativa landlagið
9. september – 23. september 2023
Gallerí Fold kynnir einkasýningu færeyska listamannsins Finleifs Mortensen „Tað figurativa landlagið“.
Í grunninn má í málverkum Finleifs Mortensen greina áhrif þess að alast upp í hinni sérstæðu færeysku náttúru. Þeirri einstöku birtu sem þar er að finna, sem og hinum sterku og oft andstæðu litum sem náttúruna einkenna og síbreytileg birtan hefur svo mikil áhrif á.
Finleif málar til jafns abstrakt og fígúratíf verk, eða óhlutbundin og hlutbundin eins og sagt er á íslensku. Hugtök sem oft eru talin andstæður í listum, en í verkum Finleifs má skynja náttúruna í abstrakt verkunum og abstraktið í þeim fígúratívu. Landslagið í kringum Þórshöfn er honum hugleikið, mótíf sem eru í uppáhaldi hjá mörgum færeyskum og dönskum listamönnum. Himinn og haf, klettar og kunnugleg fjöll. Lítil og kubbsleg hús og einstaka kirkja birtast, sem ýmist brjóta upp landslagið eða renna saman við það, hið fígúratíva verður abstrakt.
Líkt og Impressjónistarnir forðum glímir Finleif við ljósið, tilfinningu og túlkun. Skýrar útlínur í náttúrunni leysast upp, litapallettan sem hefur mótast í huga hans einkennist af mismunandi blágrænum tónum sem birtast gjarnan þegar skýjað er og svo sterkrauðum og gulum tónum sem einkenna sólarlagið. Hann byggir litinn í málverkum sínum upp með mörgum lögum af mismunandi litum sem skína í gegnum hvern annan. Úr verður samspil heitra og kaldra lita gefa verkunum ákveðna dýpt en einnig fíngerða ljóðrænu og fjarrænt yfirbragð.
Finleif Mortensen ólst upp í þorpinu Argir rétt utan við Torshöfn. Frumraun Finleifs Mortensen var árið 1985 á Ólavsvökusýngunni í Færeyjum, sú sýning er haldin árlega þar sem valdir listamenn sýna verk sín. Finleif hefur síðan haldið fjölmargar einkasýningar í galleríum og listasöfnum í Færeyjum, Danmörku og á Íslandi.
„Tað figurativa landlagið“ er þriðja einkasýning Finleifs Mortensen í Gallerí Fold og stendur sýningin til 23. september.
Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg mán-fös 10 – 18 og laugardaga 10 – 16.