Guðný M Magnúsdóttir

Guðný M Magnúsdóttir // Úr Hring 1.-26. júlí 2023

Guðný M Magnúsdóttir leirlistarkona opnar sýninguna Úr hring laugardaginn 1. júli  í Listhúsi Ófeigs Skólavörðustíg 5.

„Keramik, eða leir er partur af mér, skilgreinir að hluta til hver ég er, enda hefur hann loðað við hendur mínar í meira en fimmtíu ár og verður tæplega af mér þveginn héðan af. Hann er efni, bæði flötur og form, harður og mjúkur, síkvikur og eilífur, skál eða skúlptúr, diskur eða málverk, hann er mér sífelld upplifun  og innblástur,  vekur forvitni mina og sköpunargleði.” -GMM

Guðný hefur frá árinu 1974 unnið með leir eða frá því hún útskrifaðist úr keramikdeild Myndlista- og handíðaskólans og starfaði í Finnlandi á árunun 1980-85. Eftir heimkomu hefur hún rekið eigin vinnustofu, gallerí og um tíma Gallerí Úmbru og tekið þátt í listamannareknum galleríum, nú síðast í Kaolín Keramikgalleríi á Skólavörðustígnum.

Á löngum ferli hefur Guðný haldið yfir 14 einkasýningar bæði hér og í Helsinki ásamt því að taka þátt í fjölda sýninga erlendis.

Guðný á verk á nokkrum helstu söfnum hérlendis og einnig erlendis.

Hringform, hol form og lífræn form.

Í keramíkverkum Guðnýjar í listhúsi Ófeigs vinnur hún út frá hringforminu, ýmist fylltu eða holu, og mótar það í óræða lífræna formgerð sem hefur tilhneigingu til að sýna útlit og eiginleika lifandi vera eða landslags líkt og á frumstigi. Leirefnið ýtir svo undir náttúrutenginguna og glerungur skapar margbrotið húðlag sem vísar til jarðefna, hvort sem er á landi eða neðansjávar. Eftir stendur síkvikt samspil hluta og rýmis, annars vegar, og formgerðar, efnis og áferðar, hins vegar, sem birtist okkur sem myndlíking fyrir náttúruna fremur en eftirmynd hennar.

Sýningar opnun er klukkan 15-17 laugardaginn 1. júlí og stendur til 26. júlí.

Nánari upplýsingar veitir Guðný í síma 892 3188 eða á [email protected]

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0