Hafnarborg – Hádegistónleikar
Bryndís Guðjónsdóttir
7. nóvember kl. 12
Þriðjudaginn 7. nóvember kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á næstu hádegistónleika í Hafnarborg en þá verður sópransöngkonan Bryndís Guðjónsdóttir gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Á efnisskránni eru aríur úr óperum og óperettum eftir Verdi, Strauss og Bernstein. Yfirskrift tónleikanna að þessu sinni er „Partý og plat“.
Bryndís Guðjónsdóttir, sópran, lauk framhaldsnámi í söng árið 2015 frá Tónlistarskóla Kópavogs þar sem hún lærði hjá Önnu Júlíönu Sveinsdóttur. Þaðan lá leiðin í Listaháskóla Íslands í eitt ár þar sem hún lærði hjá Kristni Sigmundssyni, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Þóru Einarsdóttur. Bryndís útskrifaðist síðan með bæði bakkalár- og meistaragráðu frá Mozarteum-tónlistarháskólanum í Salzburg þar sem hún lærði hjá Michèle Crider. Bryndís er sigurvegari nokkurra keppna í Evrópu og má þar nefna XVIII Certamen Nuevas Voces Ciudad de Sevilla á Spáni (2022), Riccardo Zandonai á Garda á Ítalíu (2021), Duschek í Prag, Tékklandi (2018), og Ungir einleikarar (2018). Þá hefur Bryndís komið fram á fjölda tónleika, svo sem með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum Ungra einleikara undir stjórn Daniels Raiskin (2018), jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Evu Ollikainen (2021) og í Ævintýrinu um Töfraflautuna undir stjórn Kornilios Michailidis (2023).
Bryndís er reglulegur gestur Konunglegu filharmoníunnar í Prag og hefur til að mynda sungið sópransólóið í Carmina Burana með þeim í Liederhalle Stuttgart og mun syngja það aftur með þeim vorið 2024. Þá söng hún einnig sama verk árið 2022 í Norðurljósasal Hörpu með Hljómfélaginu undir stjórn Fjólu Kristínar Nikulásdóttur. Vorið 2023 söng hún svo hlutverk Næturdrottningarinnar í Óperuhúsinu í Kassel í Þýskalandi, Cunegonde úr óperunni Candide eftir Bernstein í Óperuhúsinu í Kiel í Þýskalandi og Contessu úr óperunni Gli uccellatori eftir Gassmann í Teatro Verdi í Martina Franca á Ítalíu. Það sem ber hæst um þessar mundir hjá henni er loks Óperugala í Óperuhúsinu í Kiel, hlutverk Belindu úr óperunni Dídó og Eneas eftir Purcell í Vilníus í Litháen, auk þess að syngja Ad genua eftir Önnu Þorvaldsdóttur með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kór Hallgrímskirkju. Þá mun hún koma fram á nýárstónleikum í Teatro Maestranza í Sevilla á Spáni með Konunglegu sinfóníuhljómsveitinni í Sevilla undir stjórn Lucas Macías.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.