Haukur Már Sturluson

Fjöruáhrif, einkasýning Hauks Dórs Sturlusonar í Gallerí Fold, opnar þann 30. janúar n.k. kl 14:00. Heitið dregur sýningin af staðsetningum vinnustofa hans sem hafa oftar en ekki verið staðsettar við sjávarsíðuna. Fjaran hefur verið Hauki hugleikið viðfangsefni og má sjá hana læðast inn í verkin hans þar sem þari, fuglar og önnur dýr taka sér gjarna bólfestu á striganum.
Hauk Dór þarf vart að kynna fyrir listunnendum á Íslandi enda hefur hann verði að störfum í yfir hálfa öld. Haukur Dór er bæði þekktur fyrir kröftugan og áhrifamikinn teiknistíl og málverk sem og agað og jafnframt fágað keramik. Málverk hans virðast við fyrstu sýn einföld og óhlutbundin en þegar glöggt er skoðað skynjar áhorfandinn andlit, dýr eða aðrar verur í formunum. Sum verkanna mætti jafnvel líkja við einskonar dýragarða þar sem margbrotið mann- og dýralíf flæðir yfir myndflötinn. Formin eru hrein og skörp en öðlast eigið líf á myndfletinum. Í öðrum myndum skynjar áhorfandinn dularfullan svip fortíðar sem leiðir hann til Afríku og að list frumbyggja sem Haukur Dór hefur löngum hrifist af. Tengslin við einlæga og tæra myndlist einfara og barna, sem hafa veitt mörgum listamönnum innblástur í gegnum tíðina, fara heldur ekki framhjá neinum og eru verk Hauks oft á tíðum gerð af brýnni þörf listamannsins til að skapa og vinna sig í gegnum myndefnið. Í því felst einmitt galdur hans.
Sýningin stendur til 13. febrúar og er opin á opnunartíma gallerísins. Vegna þeirra takmarkanna á samkomum vegna farsóttarinnar sem eru í gildi minnum við á að grímuskylda er í galleríinu og að gestum ber að virða tveggja metra nálægðarmörk.
Haukur Dór er fæddur 1940. Hann lagði stund á myndlistarnám í kvöldskóla í Myndlistaskólanum í Reykjavík á árunum 1958-1962. Að því námi loknu hélt hann utan til Edinborgar þar sem hann var við nám við Edinburgh College of Art árin 1962-1964. Þaðan hélt hann til Kaupmannahafnar í Det Kongelige Danske Kunstakademi þar sem hann stundaði nám á árunum 1965-1967.
Það er hægt að nálgast greinar um myndlist og viðburðakynningar sjá hér

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0