Hverfisgallerí býður á opnun einkasýningar Kristins E. Hrafnssonar, ÞVÍLÍKIR TÍMAR, laugardaginn 24. febrúar 2018 kl. 16.00
Kristinn E. Hrafnsson, myndhöggvari, hefur verið virkur í íslensku myndlistarlífi í allt að þrjátíu ár, tekið þátt í fjölda sýninga hér á landi og erlendis og á fjölmörg verk í opinberu rými. Í verkum sínum hefur hann löngum fengist við þær aðferðir sem menn hafa notað til að staðsetja sig og ná áttum í veröldinni og segja má að endurspegli ákveðna sýn á heiminn og tilfinningu fyrir umhverfinu.
Á sýningunni ÞVÍLÍKIR TÍMAR í Hverfisgalleríi er tíminn í stærra hlutverki en á fyrri sýningum Kristins, en í skúlptúrum sínum og textaverkum leitar hann í mátt orðsins til að ná einhverjum tökum á margræðni tímans.
Kristinn E. Hrafnsson er fæddur árið 1960 á Ólafsfirði. Hann stundaði nám í Myndlistarskólanum á Akureyri og við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi í Akademie der Bildenden Künste í München í Þýskalandi árið 1990. Kristinn býr og starfar í Reykjavík. Í verkum Kristins má greina heimspekilegan þráð og vangaveltur um rúm og tíma, hreyfingu, afstæði og tungumál. List hans fjallar um manninn og skilning hans á umhverfi sínu og hvernig náttúran mótar sýn hans og samskipti. Samband listaverksins við vettvanginn er mikilvægur þáttur í verkum hans, en á ferli sínum hefur Kristinn gert fjölda umhverfisverka, ýmist einn eða í samvinnu með arkitektum. Verk Kristins hafa verið sýnd á Íslandi og víða um Evrópu og er verk hans að finna í öllum helstu listasöfnum á Íslandi sem og í opinberum söfnum og einkasöfnum.