Yfirskyggðir staðir

Ný verk eftir Sigurð Guðjónsson   
Sýningatímabil 09.04.-05.06. 2021
Verið velkomin á sýningu Sigurðar Guðjónssonar í BERG Contemporary, Yfirskyggðir staðir.

Við minnum á fjöldatakmarkanir og grímuskyldu, en einungis tíu gestir mega vera inni í galleríinu hverju sinni.

Yfirskyggðir staðir
Maður gæti velt fyrir sér hvernig mögulega mætti skrásetja hinn efnislega heim og lögmál hans með íhugun og vangaveltum. Jafnframt hugsanlega leitað eftir upplifun af einhverskonar annarleika sem fyrirfinnst í veröldinni og sem gæti orðið að spennandi, sannfærandi og áhrifamiklum atburði. Vangaveltur af þessum toga gætu flokkast sem tilraunir til þess að kanna okkar eigið eðli í tengslum við tilveru óháða manninum og gætu orðið máttugur aflvaki listrænnar tjáningar.
Sigurður Guðjónsson varpar fram vangaveltum á þessum nótum í gegnum sjónrænar tilraunir sínar, þar sem hann mótar sýn okkar á hulið landslag óræðs efnis. Með því að afhjúpa áður yfirskyggða staði í vissum efniviði, skerpir hann á brennivídd og yfirskilvitlegum eiginleikum efnisins. Leiðandi þema nýrra verka hans vísar til spurnar um hvað kunni að leynast í miðlinum sem hægt sé að afhjúpa og tjá í gegnum ný sjónræn táknkerfi. Stórsæjar athuganir á ómerkjanlegum gangverkum, sem finnast í flúrljómandi ljósaperum, filmum, myndavélum og nú síðast smásjám, færast nú úr vinnustofu listamannsins inn í galleríið og breiða úr sér yfir veggi og aðra fleti. Þessar sjónrænu samsetningar, sem eru til jafns ímyndaðar og fundnar, birta okkur tálfagrar myndir af frumefnum sem fyrirfinnast í hinum efnislega heimi og við tilheyrum öll. Galleríið verður fyrir vikið að rými þar sem hægt er að velta fyrir sér fyrirbærum sem alla jafna fara fram hjá okkur í hinu daglega lífi, en tákna að sama skapi ljóðrænt samspil hljóðs og efnis. Listamaðurinn leitast við að svipta hulunni af fyrirbærafræðilegum ferlum sem eiga sér stað innan véla og milli mælikvarða, efnafræðilegra samruna, eða í bylgjulengdum og orkusviðum þessara fyrirbrigða.
Í verkinu Fluorescent tekst listamaðurinn á við efniskennd og hugmyndafræði ljóss með því að einblína á smásæ ferli inni í flúrljómandi ljósaperu. Innviðir ljósgjafans eru sýndir, þar sem þeir snúast og flökta í takt á tveimur gagnstæðum hringlaga myndum, sem nýtt fagurfræðilegt umhverfi; það stýrist af segulmögnun og samspili rafmagns, eðalgassins argons og örþunnrar fosfórhimnu á innanverðri ljósaperunni. Hátt spennustigið klýfur gasið og dregur geislunina fram á sjónarsviðið, þangað sem listamaðurinn beinir athygli okkar. Sjónarhorn myndanna kemur í veg fyrir að við áttum okkur strax á uppruna þeirra og sýnir okkur í staðinn svífandi rykbólstra í geiminum eða óreiðu í andrúmsloftinu. Innsetningin helst í hendur við seiðandi hljóðverk, sem formast af rafsegulsviði ljósaperunnar sjálfrar. Með því að beita smátækri samþættingartækni á undirstöðuefnið, skapar listamaðurinn nýja möguleika til túlkunar á þeim leyndu ferlum sem eiga sér stað inni í flúrljómandi ljósaperunni og stafa frá henni. Verkið brýtur á bak aftur þá hugmynd að efni sé stöðugt kerfi, þar sem það verður til úr samsetningum sem verða til fyrir tilstilli leiftrandi hreyfinga og tilviljanakenndra mynstra.
Stórar vélar og fjölþætt tækjanotkun, fyrirferðarmiklir innviðir og hinar margvíslegu eftirlits- og greiningaraðferðir, sem tækni nútímans býr yfir, gera mannsauganu fært að skoða afskekktustu kima efnisheimsins. Verkið Enigma flytur okkur á óljóst landsvæði, þar sem áhorfandi leggur upp í rannsóknarleiðangur í gegnum kolefni með hjálp rafeindasmásjár. Umhverfið gæti virst kunnuglegt en er að sama skapi dularfullt tilsýndar og minnir um margt á landslag plánetna á borð við Mars, eða myndir úr djúpum sprungum á hafsbotni. Þessi sýn væri ekki möguleg án lofttæmis rafeindasmásjárinnar þar sem rýmið er snautt af loft- og gastegundum, og tímalaust. Má því leiða líkur að því að innan rýmis verksins skapist tími sem líði líkur framvindu í ólínulegri, torskilinni frásögn. Tími verksins ákvarðast af sjónrænni framsetningu sem samanstendur af sveiflum og takti í minnsta hugsanlega skala, nánast í dularveröld. Hið gríska esoterikos er notað um það sem tilheyrir innsta hring, lýsir „innstu kimum, fráteknum fyrir meistarana“ og lýsir nákvæmlega framsetningu hins leynda sem filman afhjúpar. Enn og aftur beitir listamaðurinn tækninni til að veita
aðgang að þeim kimum eðlisheimsins sem alla jafna eru huldir. Þrátt fyrir nákvæmnina sem er nauðsynleg í tilrauninni virðist sem listamaðurinn vildi gjarna sjálfur sleppa hendinni af listaverkinu og taka að sér hlutverk áhorfanda.
Á sýningu sinni býður Sigurður áhorfendum að stíga inn í ramma hljóð- og sjónrænnar upplifunar sem byggist á nákvæmri greiningu á innviðum viðfangsefnisins. Tíminn er tekinn úr sambandi; við rannsökum púls efnisins sem birtist okkur. Ferlar efnisheimsins samtvinnast tilfinningalegri upplifun og grunnskynjun skilningarvita okkar. Höfum í huga það sem John Cage minnti okkur á forðum: Það „að fara í humátt tilfallandi hljóða jafngildir höfnun hins mannlega, það er sálfræðileg vegferð sem leiðir okkur inn í hinn náttúrulega heim þar sem við sjáum, ýmist smám saman eða skyndilega, að mennskan og náttúran eru saman í heiminum, ekki aðskilin.“ Í þessum skilningi eru öll hljóð og allar myndir í eðlislægum kjarna sínum þeirrar náttúru að hægt er að rannsaka þau með því að beita sönnum samþættingarferlum, setja saman frumþætti og hluta og mynda með því nýjar, tengdar og endurupphugsaðar heildir.
Mónica Bello, sýningarstjóri

Klapparstígur 16 101 Reykjavik

+354 562 0001

[email protected]

bergcontemporary.is


09.04.-05.06. 2021


CATEGORIES

NEARBY SERVICES

  • Best of Iceland

    Best of Iceland
  • Related Articles