Hljóðön – HLJORÐ Sunnudaginn 7. júní kl. 20

Sunnudaginn 7. júní kl. 20, lýkur sjöunda starfsári tónleikaraðarinnar Hljóðana í Hafnarborg með tónleikum Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur, listakonu og skálds, og Svans Vilbergssonar, gítarleikara. Yfirskrift tónleikanna – HLJORР– er nýyrði Ástu Fanneyjar, samsett úr orðunum „hljóð“ og „orð“ og er tilraun til að samþætta í eitt orð tvær ólíkar birtingarmyndir merkingar. Annars vegar fyrirframgefna merkingu orðanna og hins vegar samhengisbundna merkingu hljóða, þar sem merkingin sprettur fram eftir samhengi þeirra og samsetningu. Á tónleikunum fléttast ný og nýleg verk Ástu Fanneyjar saman við gítareinleiksverk í flutningi Svans eftir m.a. Hafliða Hallgrímsson, Huga Guðmundsson, Scott Wollschleger og fleiri.

Ásta Fanney Sigurðardóttir vinnur meðal annars með tóna, hljóð og orð í verkum sínum, ásamt gjörningum. Henni er hið óvænta hugleikið og innleiðir oft væntingar hlustenda og áhorfenda í verk sín. Ásta hefur sýnt og flutt verk sín, ljóð og gjörninga á ýmsum hátíðum og sýningum bæði hérlendis og erlendis. Má þar nefna Listahátíð í Reykjavík, Tectonics í Aþenu, Raflost, Hróarskeldu, Eurosonic, Iceland Airwaves, Feneyjatvíæringinn, Norður og Niður-tónlistarhátíð, Stockholm International Poetry Festival, Stanza Poetry Festival og tilraunakenndu tónleikaseríuna Verpa eggjum, ásamt því að koma reglulega fram í tónlistarrýminu Mengi. Hún hefur einnig komið fram með öðrum á hátíðum á borð við Cycle Music and Art Festival og Sequences Real Time Art Festival, auk tónleikaferðalaga um Evrópu. Ásta Fanney hefur gefið út bókverkið Kaos Lexicon (2017) og ljóðabækurnar Herra Hjúkket (2012) og Eilífðarnón (2019).

Svanur Vilbergsson hefur haldið einleikstónleika víða um heim, m.a. í Bandaríkjunum, Hollandi, Spáni, Englandi, Belgíu og Írlandi. Meðal nýlegs má nefna einleikstónleika í Reykjavík Classics tónleikaröðinni í Eldborgarsal Hörpu, þar sem hann varð fyrsti klassíski gítarleikarinn til að spila einleik í þeim sal. Hann hefur komið fram í sjónvarpi í Bandaríkjunum og á Spáni og var valinn fyrir Íslands hönd til þátttöku í norsk-íslenska menningarverkefninu Golfstraumnum. Árið 2011 kom út fyrsti einleiksdiskur Svans sem kallast Four Works og hefur honum verið einkar vel tekið. Svanur er einn listrænna stjórnenda og stofnenda alþjóðlegu gítarhátíðarinnar Midnight Sun Guitar Festival og er meðlimur í Íslenska gítartríóinu sem sem hefur sérhæft sig í flutningi á íslenskri samtímatónlist.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar, þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiðir áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni eru verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar, sem telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin nýtur stuðnings mennta- og menningarmálaráðuneytis. Tónleikarnir voru upphaflega á dagskrá Hafnarborgar í apríl í tengslum við Bjarta daga í Hafnarfirði en tónleikunum var frestað til sumars af heilsufarssjónarmiðum.

Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg. Almennt miðaverð kr. 2.500, verð fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1.500.

Frekari upplýsingar veita:

Þráinn Hjálmarsson, listrænn stjórnandi, [email protected], s. 697 7611

Hólmar Hólm, kynningarfulltrúi Hafnarborgar, [email protected], s. 585 5793

iframe code

NEARBY SERVICES

  • Best of Iceland

    Best of Iceland
  • Related Articles

      Carl Boutard og Ásmundur Sveinsson: Gróður jarðar

      Carl Boutard og Ásmundur Sveinsson: Gróður jarðar

        Sýningaropnun – Carl Boutard og Ásmundur Sveinsson: Gróður jarðar Fimmtudag 14. október kl. 20.00 í Ásmundars...

      Ógnvaldarnir / Men of Terror

      Ógnvaldarnir / Men of Terror

      Laugardaginn 21. ágúst kl. 14 ræða Dr. William R. Short og Reynir A. Óskarson við gesti Þjóðminjasafnsins um rannsóknir ...

      „Kristnihald undir Jökli“

      „Kristnihald undir Jökli“

      Anne Herzog Anne Herzog er fædd 1984. Hún er franskur listamaður og listakennari sem vinnur í hina ýmsu listmiðla. Hún...

      Andlitsmyndir Kjarvals

      Andlitsmyndir Kjarvals

      Staður viðburðar Kjarvalsstaðir Vikulegar hádegisleiðsagnir á miðvikudögum um sýninguna á Kjarvalsstöð...