Á myndinn eru frá vinstri: Stefán Á. Magnússon og Jón Þór Hjaltason hjá Fasteignafélaginu G1 ehf og listamennirnir Rósa Gísladóttir (sigurvegari samkeppninnar), Carl Boutard og Sirra Sigrún Sigurðardóttir.

Listaverkið Stanslaus eftir Rósu Gísladóttur

valið til uppsetningar við Grensásveg 1

Skúlptúr myndlistarkonunnar Rósu Gísladóttur, Stanslaus, var valinn til uppsetningar við nýbyggingu á Grensásvegi 1 í samstarfi lóðarhafa og Reykjavíkurborgar. Samkeppnin um útlistaverk er hluti af þeirri stefnu Reykjavíkurborgar að gæði og gott umhverfi einkenni uppbyggingarsvæði borgarinnar og að þar sé ákveðinni fjárhæð varið í listsköpun í almannarýmum.

Verkið Stanslaus var valið úr innsendum tillögum í lokaðri samkeppni en í umsögn dómnefndar segir meðal annars að verkið kallist á við bogalínur hússins á áhrifaríkan hátt. Hluti verksins er fagurlitað gler og mun skúlptúrinn njóta sín jafnt að nóContinue ttu sem degi með fallegri lýsingu. Reikna má með að verkið verði kennileiti fyrir bygginguna og nærliggjandi svæði og áhugaverður hluti af götumynd Grensásvegar, hins nýja húss og mikilvægra gatnamóta, þar sem fjöldi akandi, hjólandi og gangandi vegfarenda á daglega leið um.

Samkeppnin um listaverk við Grensásveg 1 var unnin í samstarfi lóðarhafa og Reykjavíkurborgar með fulltingi Sambands íslenskra myndlistarmanna og hafði Listasafn Reykjavíkur umsjón með verkefninu. Aðrir listamenn sem valdir voru til þátttöku voru auk Rósu Gísladóttur, Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Carl Boutard. Dómnefnd átti úr vöndu að ráða þar sem gæði verkanna voru mikil og listrænt gildi þeirra ótvírætt. Að teknu tilliti til hönnunar byggingarinnar, staðsetningar við gatnamót þar sem umferð er mikil og almenns samhengis við umhverfið var niðurstaðan að velja verk Rósu. Verkið er einkennandi fyrir listferil Rósu en hún hefur áður unnið verk í svipuðum anda sem sýnd hafa verið bæði hérlendis og erlendis.

Myndlist á uppbyggingarsvæðum í Reykjavík

Reykjavíkurborg hefur þá stefnu að áhugaverð listaverk séu hluti af almannarými og einkenni ný skipulagssvæði í borginni, auðgi mannlíf og skapi áhugavert umhverfi. Listasafn Reykjavíkur vinnur að verkefninu í samstarfi við lóðarhafa. Fleiri listamenn vinna nú tillögur að útilistaverkum í samstarfi lóðarhafa og Reykjavíkurborgar. Við Center Hotels á Seljavegi eru það þau Erla Þórarinsdóttir, Helgi Már Kristinsson og Sigurður Árni Sigurðsson sem vinna tillögur. Að auki er verið er að vinna að því að setja upp verk í Rofabæ 7-9 eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur og verk eftir Dagrúnu Aðalsteinsdóttur hefur verið sett upp við Skipholt 1. Önnur verkefni eru í vinnslu og er að vænta samkeppni um verk á Héðinsreit, Orkureit og á Kirkjusandi.

Nánari upplýsingar veitir Nathalía Druzin Halldórsdóttir kynningarstjóri Listasafns Reykjavíkur.
Netfang: [email protected] / sími: 8201201.

RELATED LOCAL SERVICES