María Sigríður Jónsdóttir – APRÍL Málverkasýning

María Sigríður Jónsdóttir opnar málverkasýningu sína APRÍL fimmtudaginnn 18.apríl kl.15-17.

María stundaði myndlistarnám í Ríkisakademíunni í Flórens á árunum 1994-1998 og hefur síðan búið og starfað við myndlist á Ítalíu. Í málverkum hennar gætir áhrifa víða að, sem og úr draumum og innri hugarheimi. Hún laðast að hinu óþekkta, andlegum málum og súrrealisma. Í verkunum birtist hennar innri heimur og sú tilfinning sem hún ber í hjartanu. Málverkin eru oft draumkennd og óraunveruleg, smáævintýri á striga og María setur gjarnan venjulega hluti í óvenjulegar aðstæður. Þá fær áhorfandinn frelsi til að túlka verkið á sinn persónulega hátt, búa til sína eigin sögu og finna sína eigin leið.

María segir sjálf: ,,Í verkum mínum gætir líka áhrifa frá þeim tíma sem ég bjó í Flórens, vöggu endurreisnartímabilsins. Sá undurfagri listheimur sem Flórens og Ítalía bjóða uppá hvert sem litið er hafa veitt mér innblástur. Íslenska birtan, litirnir og fjöllin hafa þó haft mest áhrif á verk mín. Blóm eru mér mjög hugleikin og hafa verið áberandi í verkum mínum síðustu ár. Þau tengjast okkur á svo margan hátt, bæði í gleði og sorg, minningum hugans og oft ríkja miklar tilfinningar þegar við tengjumst blómunum og gefum þeim gaum. Óendanleg litadýrð þeirra, form og mýkt, ilmur og birtingarmyndir geta sagt okkur sögur, huggað og glatt. Ég býð áhorfendum mínum að staldra við, njóta augnabliksins, hugleiða og. upplifa sín eigin ævintýri og sögur.”

APRÍL er sölusýning og stendur til 7.maí. Sýningin er aðgengileg á opnunartíma Hannnesarholts kl.11.30-16 alla daga nema sunnudaga og mánudaga.

RELATED LOCAL SERVICES