Margrét H. Blöndal Þín er vænst / Do not go roughly into that good night

Velkomin á opnun sýningarinnar Þín er vænst / Do not go roughly into that good night, fimmtudaginn 23. maí næstkomandi frá 17 til 19. Á sýningunni sem er fjórða sýning Margrétar í i8 eru ný verk af ýmsum stærðum unnin á pappír.

Örkin, órudd og duttlungafull. Og engin önnur leið en í gegn. Er það ekki annars?
____Jú. Þín er vænst.

____Gott og vel; efnið hefur áhrif. Litaduft og olía, elementin hrá og óblönduð. Og örkin, samlokubréf úr gömlu stríði, óstýrilát á stundum. Endrum og sinnum skrikar höndin, nær sér svo aftur á strik. Þetta er viðureign, efnið fer þangað sem efnið fer, og ekkert annað að gera en kljást mjúklega, strjúka harkalega, elta formin eins og spotti eltir flugdreka; knýja formin eins og gufa knýr vél. Hvaðan kemur þessi kennd í fingurgómana? Viðnám og framsal, inngjöf og eftirgjöf. Fjórhjóladrifinn jeppi keyrir hægt yfir breitt og straumfast vað, í hálfmánalagaðri sveigju. Stórgrýti og sandur, afl og æðruleysi. Áin nær upp að glugga, óttinn að nú sé hún of djúp. Og eftir hvert skipti, sama undrunin að farartækið hafi staðið þetta af sér.
Áfram, inn í hina góðu nótt.

____Er munur á því að fanga form og frelsa form? Fanga sagnir og frelsa sagnir? Fuglinn létti flýgur en fylgir veðri og vindum. Á sama hátt togar hinn kröfuharði dagur og ýtir. En sagnirnar veita fastan punkt til að spyrna við, taka á loft, koma hreyfingu af stað. Einhvers staðar þarna er örþunnur slóði, vart greinilegur, sem leiðir upp að hinni góðu nótt. Hún er ýmist dimm eða björt; ástand sem varir stundum stutt, og stundum lengi. Griðastaður til að eiga að. Þar hafa öflin fullkomið aðgengi að þér; beintengingin efalaus. Landslagið speglast fram og til baka, form fyrir form, sögn fyrir sögn. Og þín er vænst, aftur og aftur, nótt fyrir nótt. Að vænta og vinur, þetta eru orð sprottin af sama stofni. En nú ríður á að beita ekki hörku, festast ekki, spóla ekki. Undirlagið er hvergi viðkvæmara en hér.

Fríða Ísberg

Margrét H. Blöndal (f. 1970) býr og starfar í Reykjavík. Árið 2022 hélt hún einkasýninguna Liðamót / Ode to Join á Listasafni Íslands. Margrét hefur sýnt víða, meðal annars haldið einkasýningar í Fort Worth Contemporary Arts, Texas og Listasafni Reykjavíkur. Verk hennar hafa einnig verið til sýnis á samsýningum eins og Momentum 6, Moss, Noregi; Manifesta 7, Trentino, Ítalíu; Kunstverein Baselland, Sviss. Árið 2009 var hún í árslangri vinnustofudvöl við Laurenz Haus Stiftung, Basel, Sviss.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0