OF THE NORTH
5.2.2021 – 9.1.2022, Listasafn Íslands
Risastór vídeóinnsetning Steinu af Norðrinu frá árinu 2001 er áhrifamikið og töfrandi verk sem lætur engan ósnortinn. Að geta tekið upp hljóð og mynd í rauntíma opnaði nýjar víddir í heimi sjónlista á sjöunda áratug síðustu aldar. Þau hjónin Steina og Woody Vasulka komust í kynni við framsækna listamenn á sviði nýrra miðla er þau bjuggu í New York þar sem þau ráku um tíma sýningar- og samkomustað fyrir hljóð- og vídeólistamenn sem þau opnuðu árið 1971 og kallaðist The Kitchen. Þetta var tími mikilla tækniframfara á sviði rafrænnar menningar ekki síður en geimvísinda. Steina (Steinunn Bjarnadóttir Briem) og Woody Vasulka voru frumkvöðlar sem unnu saman að margs konar rannsóknum er tengdust myndbandalist og beislun rafrænna boða og síðar stafrænna, þar sem tækin sjálf voru jafnframt notuð í samtali sem miðaði að því að skapa áhugaverð verk þar sem ekkert var slegið af listrænum kröfum. Þetta samtal þeirra við tæki og tól varð einkar áhugavert og gefandi þar sem menntun Steinu í tónlist og tækniþekking Woodys naut sín. „Hreyfing og tími eru lykilatriði í minni list,“ er haft eftir listakonunni.
Verkið Of the North frá árinu 2001 er unnið út frá safni Steinu af vídeóupptökum, mestmegnis af náttúru Íslands, yfirborðinu eða því sem skoða má í smásjá. Örverur jafnt sem brim hafsins og bráðnandi ís, berghrun ásamt margs konar náttúrufyrirbærum sem snerta jarðmyndun og niðurbrot á plánetunni okkar. Verkið vísar jafnframt út í geiminn þar sem sjá má hnattlaga kúlurnar snúast um ímyndaðan ás í seiðandi rytma með öllum þeim hljóðum sem fylgja. Hreyfitakturinn og orkan framkallar myndlíkingu sem getur leitt huga áhorfandans í margar áttir, hvort heldur er að stórbrotinni fegurð eða jarðbundnum hugleiðingum um viðkvæma náttúru og forgengileika jarðarinnar.
Steina (f. 1940)
Of the North, 2001
Vídeóinnsetning
LÍ 8075
Tónlistarkonan með myndbandsupptökuvélina
Þrátt fyrir að hafa dvalið í Bandaríkjunum í fimmtíu ár hefur íslenska listakonan Steina Vasulka (f. 1940) ávallt haldið tengslum við land sitt og þjóð. Í gegnum tíðina hefur hún komið reglulega til landsins til þess að vinna að listsköpun sinni, enda er íslensk náttúra hinni áttræðu myndbandslistakonu ofarlega í huga. Í verkum hennar má oftar en ekki líta íslenskt landslag á borð við mosa, fossa, hraun eða frussandi leirhvera. sjá meira hér
Sjá fleiri greinar um myndlistamenn sjá hér