Rebekka Blöndal & Marína Ósk

Síðdegistónar í Hafnarborg – Rebekka Blöndal & Marína Ósk
Föstudaginn 19. maí kl. 18

Föstudaginn 19. maí kl. 18 munu söngkonurnar, laga- og textahöfundarnir, skellibjöllurnar og vinkonurnar Rebekka Blöndal og Marína Ósk koma fram á síðustu Síðdegistónum vetrarins í Hafnarborg en þær stöllur hafa heldur betur slegið í gegn á íslenskri tónlistarsenu síðustu misseri.

Ekki nóg með að báðar hafi gefið út plötur í ágúst 2022 og haldið sitthvora útgáfutónleikana á Jazzhátíð Reykjavíkur, heldur gerðu þær sér lítið fyrir og unnu báðar til Íslensku tónlistarverðlaunanna í mars 2023, Rebekka fyrir söng ársins í flokki djasstónlistar og Marína fyrir tónsmíð ársins í sama flokki. Þá hafa plötur þeirra, Ljóð eftir Rebekku og One Evening in July eftir Marínu, fengið lof gagnrýnenda, sem og prýðisspilun og -hlustun á streymisveitum.

Rebekka og Marína hafa unnið saman lengi og eiga að baki frábær samstarfsverkefni en á tónleikunum munu þær flytja eigin lög af áðurnefndum plötum og telja auk þess í nokkur vel valin samsöngsnúmer. Ásamt þeim Rebekku og Marínu leika þeir Andrés Þór á gítar og Andri Ólafsson á bassa.

Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.

Tónleikaröðin er styrkt af Hafnarfjarðarbæ, Tónlistarsjóði Rannís og Menningarsjóði FÍH.

RELATED LOCAL SERVICES