Mens et Manus

 

Mynd:: Georg Óskar. I forced my drowsy eyes open to find myself on the back of a massive dragon, 2022. Courtesy of the artist.

Mens et Manus opnar í Listvali á Granda

Fjórir íslenskir myndlistarmenn taka þátt, Georg Óskar, Hulda Vilhjálmsdóttir, Kristín Morthens og Steingrímur Gauti Ingólfsson, en sýningin var fyrst sett upp í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn árið 2022.

Sýningin Mens et Manus opnar næstkomandi föstudag, 13. janúar, í Listvali á Granda, Hólmaslóð 6, en sýningin var fyrst sett upp í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn árið 2022. Fjórir myndlistarmenn taka þátt, þau Georg Óskar, Hulda Vilhjálmsdóttir, Kristín Morthens og Steingrímur Gauti Ingólfsson. Ttitill sýningarinnar Mens et Manus er á latínu og þýðir „hugur og hönd“. Með titlinum vísa sýningarstjórar í hugarheim myndlistarmannanna sem eiga það sameiginlegt að vinna út frá þeirra eigin tilfinningum, upplifunum og umhverfi þar sem sköpunarferlið sjálft, tilviljanir og hugskot leiða þau áfram í átt að lokaniðurstöðu, hver á sinn ólíka hátt. Sýningin er styrkt af Icelandair, Íslandsstofu, Familien Hede-Nilesens Fond og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar.

NÁNAR

Georg Óskar (f. 1985) útskrifaðist frá Myndlistaskólanum á Akureyri 2009 og lauk mastersnámi í myndlist við Kunst- og designhøgskolen í Bergen í Noregi 2016. Verk Georgs Óskars bera mörg hver með sér kómískan blæ þar sem hversdagsleg fyrirbæri og hin líðandi stund er fest á strigann. Hann grípur á lofti áhugaverða atburði, sleppir ímyndunaraflinu lausu og skapar sína eigin veröld á myndflötinn. Georg Óskar hefur haldið sýningar víða erlendis t.d. á Spáni, í Þýskalandi, Kína, Sviss, Noregi og á Íslandi. Georg Óskar býr og starfar í Osló, Noregi.

Hulda Vilhjálmsdóttir (f. 1971) útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með BA gráðu í málun árið 2000. Hún tók diplómanám í leirmótun og keramik við Myndlistaskólann í Reykjavík 2007-2008. Hulda er þekkt fyrir persónulegt myndmál og hefur þróað með sér einstakt næmni fyrir hinu mannlega í verkum sínum. Árið 2007 hlaut Hulda tilnefningu til Carnegie ART verðlaunanna og árið 2018 tilnefningu til Íslensku Myndlistarverðlaunanna fyrir einkasýninguna Valbrá í Kling og Bang. 2019 hlaut Hulda myndlistarverðlaunin Tilberann. Hulda hefur haldið fjölda einka- og samsýninga hérlendis og erlendis og eru verk hennar í eigu listasafna og einkaaðila. Hulda býr og starfar í Reykjavík.

Kristín Morthens (f. 1992) útskrifaðist árið 2018 með BFA í málaralist frá OCAD háskóla í Torontó, Kanada þar sem hún hlaut heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi árangur í málun. Í verkum hennar eru frásagnir af nánd, aðskilnaði og mörkum túlkaðar út frá líkamlegum formum innan óræðra rýma, sem virðast tilheyra öðrum heimi. Verk Kristínar hafa verið sýnd á sýningum í söfnum og galleríum á Íslandi, í Evrópu og í Bandaríkjunum og Kanada. Kristín býr og starfar í Reykjavík.

Steingrímur Gauti Ingólfsson (f. 1986) lauk B.A. námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur verið virkur í sýningarhaldi síðastliðin ár. Steingrímur Gauti nálgast málverkið af alúð og léttleika, með því að aðskilja sjálfið og fyrirframgefnar hugmyndir frá daglegu sköpunarferli sínu. Hann hefur tekið þátt í samsýningum bæði á Íslandi og erlendis og haldið allnokkrar einkasýningar. Nýlegar sýningar eru m.a. Soft Approach í Galerie Marguo í París, Life in a Day í Diller Daniels í Zurich og Allt á sama tíma í Hafnarborg. Verk Steingríms má finna bæði í opinberum- og einkasöfnum í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Steingrímur Gauti býr og starfar í Reykjavík.

UM LISTVAL

Listval er myndlistargallerí og ráðgjafarfyrirtæki sem leggur áherslu á að bjóða upp á úrval af því besta í samtímalist á Íslandi frá bæði upprennandi og þekktari myndlistarmönnum. Listval var stofnað árið 2019 með það að markmiði að auðvelda fólki að fjárfesta í myndlist. Sýningarrými Listvals er í Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi í hjarta Reykjavíkurborgar.

Að Listvali standa Elísabet Alma Svendsen og Helga Björg Kjerúlf. Þær hafa báðir starfað þvert á sviði myndlistar og hönnunar að ýmsum verkefnum og komið með reynslu sína, innsýn og tengsl við listalífið inn í Listval. Hin fjölmörgu verkefni sem að Elísabet Alma og Helga Björg hafa komið að tengdum myndlist eru meðal annars rekstur gallerís, útgáfa, Feneyjatvíæringurinn og kynning á íslenskri myndlist á alþjóðavettvangi. Kristín Kristjánsdóttir er sjálfstæður menningarstjórnandi og verkefnastjóri Listvals með aðsetur í Danmörku. Starfsreynsla og áhugi Kristínar á íslenskum listum hvetur hana til að leita leiða til að kynna íslenska menningu erlendis. Kristín starfar einnig í Sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn sem fulltrúi ræðismála.

 

 

RELATED LOCAL SERVICES