Þula – Opna

Þula
Áslaug Íris Friðjónsdóttir – Opna
25. nóvember kl. 17:00

Verið þið hjartanlega velkomin á Opna, aðra einkasýningu listamannsins Áslaugar Írisar Katrínar Friðjónsdóttur hjá Þulu.

“Í öllu skapandi ferli opnum við gáttir inn í nýja heima, inn í víddir innra með okkur og í kringum okkur. Við opnum á það óþekkta, það óvænta, það sem verður til í samspili þess agaða og þess ómeðvitaða.
Á sýningunni Opna veltir Áslaug fyrir sér rými málverksins, ytra rýminu og því innra. Stóra samhengi myndflatarins og smæstu einingunum. Hvaða rými opnar verkið? Hvaða sjónarhorn veljum við okkur og hvað kemur okkur á óvart?

Við gætum verið stödd í huglægum veruleika listamannsinns, inn í líkamanum, úti í náttúrunni eða jafnvel á fjarlægum vetrarbrautum. Ef þú horfir nógu lengi gætirðu jafnvel heyrt það sem þú sérð. Litir, steinar, vatn, dúkur, blýantur og annað efni rennur saman á sama hátt og skynjunin. Andstæður verða að hliðstæðum, það línulega fer á flug og til verður leikandi hreyfing sem er bæði í myndfletinum og því nýja samhengi sem skynfærin nema.”

Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir (f. 1981) lauk MFA gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York árið 2009 og BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2006. Rík efniskennd einkennir verk Áslaugar sem vinnur með óhlutbundið myndmál og leitar merkingar í ólíku efnisvali og aðferðum t.m. með teikningu í steindu yfirborði og samspili steina við aðra efnisþætti. Áslaug notast auk þess við linoleum efni og málningu við formgerð skúlptúrískra málverka sinna þar sem ferðalag augans og ólíkt sjónarhorn listamanns og áhorfanda mætist.

Áslaug hefur sýnt bæði einkasýningar og tekið þátt í samsýningum í söfnum og galleríum í Evrópu, Bandaríkjunum og Íslandi. Þar má helst nefna Stellingar I Línulegar frásagnir í Berg Contemporary, A17 í Listasafni Reykjanesbæjar, Skúlptúr Skúlptúr í Gerðarsafni og einkasýningarnar Arfur í Gallerí Þulu, Bergmál í Listval Gallerí og Skil | Skjól í Neskirkju. Fyrr á þessu ári tók Áslaug þátt í listamessunni Market í Stokkhólmi, samsýningu í sendiherrabústað Íslands í Stokkhólmi og samsýningunni Samhljómur í Sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Verk eftir Áslaugu eru í eigu opinberra listasafna á Íslandi.

RELATED LOCAL SERVICES