Hljóðön – Rapsódía

Sunnudaginn 28. apríl kl. 20

Sunnudaginn 28. apríl kl. 20 fara fram síðari tónleikar Stirnis Ensemble á yfirstandandi starfsári tónleikaraðarinnar Hljóðana í Hafnarborg en Stirni Ensemble hefur verið staðarlistahópur tónleikaraðarinnar starfsárið 2018-2019. Hópinn skipa Björk Níelsdóttir, sópran, Grímur Helgason, klarínettuleikari, Hafdís Vigfúsdóttir, flautuleikari og Svanur Vilbergsson, gítarleikari.

Efnisskrá tónleikanna er rapsódísk, þar sem flakkað verður frjálslega á milli ólíkra hljóð- og hugmyndaheima úr öllum áttum. Frumflutt verður nýtt verk eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur, sem samið er sérstaklega í tilefni tónleikanna. Ásamt flutningi nýlegra verka Sóleyjar Stefánsdóttur, Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur og Arngerðar Maríu Árnadóttur, sem útfærð hafa verið sérstaklega fyrir hópinn í tilefni tónleikanna. Fléttast verk þeirra saman við eldri verk höfunda á borð við Cathy Berberian, Gerhard Stäbler, Giacinto Scelsi og Aldo Clementi.

Stirni Ensemble hefur látið til sín taka í íslensku tónlistarlífi síðustu misseri og komið fram í tónleikaröðum á borð við Sígilda sunnudaga í Hörpu, Myrka músíkdaga og Þjóðlagahátíð á Siglufirði svo fátt eitt sé nefnt. Hópurinn leggur mikið upp úr samstarfi við tónskáld og hefur síðustu misserin frumflutt fjölda tónverka íslenskra og erlendra höfunda. Á efnisskrá hópsins hafa íslensk verk fengið talsvert pláss og blandast saman við erlenda klassík, gamla og nýja, en Stirni hefur fengið umritað fyrir sig nokkrar klassískar tónsmíðar svo að falli að samsetningu hópsins. Kvartettinn telst enda nokkuð óvenjulega samsettur en nýstárlegur hljóðheimur hans hefur vakið athygli og eftirtekt.

Björk Níelsdóttir, sópran, stundaði nám í klassískum söng við Tónlistarskólann í Hafnarfirði og við Tónlistarháskólann í Amsterdam. Árið 2015 útskrifaðist Björk með hæstu einkunn úr mastersnámi þaðan og fékk hún auk þess sérstaka viðurkenningu fyrir listsköpun. Björk hefur komið fram í frumflutningi á fjöldamörgum óperum, leikuppfærslum og tónverkum. Einnig hefur hún túrað með Björk og Florence and the Machine, sem söng- og trompetleikari. Í júní síðastliðnum söng Björk eitt aðalhlutverkið í frumflutningi á óperunni Aarappelvreters eftir David Dramm og Romain Bischoff. Framundan hjá Björk er tónleikahald á hinum ýmsu djasshátíðum um Evrópu í sumar með Kaja Draksler Oktett og næsta haust uppfærsla á nýrri óperu með Holland Opera og Het Houten Huis sem mun bera nafnið Ruimtevluchte. Björk var valin bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2018. Björk Níelsdóttir er fastur meðlimur í Kaja Draksler Oktett, Dúplum dúó, Gadus Morhua og Stirni Ensemble.

Grímur Helgason, klarínettuleikari, nam klarínettuleik hjá Sigurði I. Snorrasyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá Einari Jóhannessyni í Listaháskóla Íslands, þaðan sem hann lauk B. Mus. gráðu árið 2007. Enn fremur nam hann við Conservatorium van Amsterdam hjá Hans Colbers og lauk þaðan M. Mus. prófi vorið 2011. Á námsárunum var Grímur einn stofnfélaga Kammersveitarinnar Ísafoldar. Grímur hefur á undanförnum árum leikið með margs konar hljómsveitum og samleikshópum, þ.á.m. hljómsveit Íslensku óperunnar, Caput hópnum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Kúbus. Hann flytur reglulega kammertónlist og einleiksverk fyrir klarínettu og er einn stofnenda Tónlistarhátíðarinnar Bergmáls á Dalvík. Grímur er fastráðinn klarínettuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hafdís Vigfúsdóttir, flautuleikari, hefur lokið burtfararprófi í flautuleik frá Tónlistarskóla Kópavogs, B. Mus. gráðum frá Listaháskóla Íslands og Konunglega konservatoríinu í Den Haag í Hollandi, sem og fjórum diplómum í flautuleik og kammertónlist frá Konservatoríinu í Rueil-Malmaison í Frakklandi, auk mastersgráðu frá Tónlistarháskólanum í Osló. Hafdís hefur komið fram sem einleikari með Íslenska flautukórnum, Kammersveit Reykjavíkur, Ungfóníu, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Á námsárunum lék hún með ýmsum hljómsveitum, m.a. Ungdomssymfonikerne, Orchestra NoVe og Norsku útvarpshljómsveitinni (KORK). Hafdís hefur frá því hún flutti heim gegnt lausamennsku við Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveit Íslensku óperunnar, auk þess að flytja kammermúsík af ýmsum toga.

Svanur Vilbergsson, gítarleikari, hefur haldið einleikstónleika víða um heim, m.a. í Bandaríkjunum, Hollandi, Spáni, Englandi, Belgíu og Írlandi. Meðal nýlegra verkefna má nefna einleikstónleika í Reykjavík Classics tónleikaröðinni í Eldborgarsal Hörpu. Þá hefur hann komið fram í sjónvarpi í Bandaríkjunum og á Spáni og var valinn fyrir Íslands hönd til þátttöku í norsk-íslenska menningarverkefninu Golfstraumnum. Árið 2011 kom svo út fyrsti einleiksdiskur Svans, Four Works. Svanur er einn listrænna stjórnenda og stofnenda alþjóðlegu gítarhátíðarinnar Midnight Sun Guitar Festival og er meðlimur í Íslenska gítartríóinu. Svanur stundaði nám við King Edwards VI menntaskólann í Totnes í Englandi og útskrifaðist þaðan af tónlistar- og líffræðibraut árið 2001. Þaðan hélt hann til Spánar og sótti þar einkatíma hjá Arnaldi Arnarsyni við Escola Luther. Árið 2002 hóf Svanur nám við Tónlistarháskólann í Maastricht og lauk þaðan B. Mus. gráðu vorið 2006. Sama ár hóf hann mastersnám við Konunglega tónlistarháskólann í Haag sem hann lauk vorið 2008.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiðir áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni eru verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar, sem telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin nýtir stuðnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg. Almennt miðaverð kr. 2.500, verð fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1.500.

220 Hafnafjörður

Hafnarborg.isCATEGORIES


iframe code

NEARBY SERVICES

  • Best of Iceland

    Best of Iceland
  • Related Articles