Skúlptúr / skúlptúr

18.11.2020 – 28.02.2021

 

Sýningaröðin SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR opnar í fjórða sinn í Gerðarsafni með einkasýningum þeirra Ólafar Helgu Helgadóttur og Magnúsar Helgasonar. Með sýningaröðinni er gerð tilraun til að skoða skúlptúrinn í samtímanum og þróun þrívíðrar myndlistar, ekki einungis sem mikilvægum hluta listasögunnar heldur einnig sem lifandi sjónrænu tungumáli samtímalistarinnar. Sýningunum er ætlað að heiðra Gerði Helgadóttur (1928-1975) og framlag hennar til íslenskrar höggmyndalistar um leið og dregnar eru línur sem tengja verk hennar við samtímaskúlptúr.

Titillinn SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR vísar til sýningarinnar Skúlptúr / skúlptúr / skúlptúr sem haldin var á Kjarvalsstöðum árið 1994 en hún opnaði sama ár og Gerðarsafn var opnað fyrir gestum. Þar sýndu á þriðja tug listamanna verk sín en sýningunni var ætlað að gefa yfirlit yfir höggmyndalist þess tíma.

Ólöf Helga Helgadóttir útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2005 og lauk mastersnámi í myndlist frá Slade School of Fine Art í London árið 2010. Árið 2001 stundaði hún örnám við Kvikmyndaskóla Íslands. Í verkum sínum ýtir Ólöf hversdagslegu efni út fyrir sitt hefðbundna hlutverk og varpar þannig óvæntu ljósi á kunnugleg sjónarhorn. Efnið sem hún notar hefur auk þess oft sögulega merkingu sem er mjög persónuleg. Ólöf býr og starfar á Siglufirði.

Magnús Helgason útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá AKI í Hollandi árið 2001 og hefur síðan unnið að tilraunakenndri kvikmyndagerð, innsetningum, málaralist og skúlptúr. Í verkum sínum notar Magnús fundinn efnivið sem hann umbreytir ýmist í tvívíð málverk eða þrívíðar innsetningar. Hann tekur hluti og efni, ýmist sem náttúran hefur veðrað eða maðurinn skapað í öðrum tilgangi, og raðar saman í nýja heild. Í verkunum er oft brugðið á leik með greinarmuninn á efni og hlut. Í leit að fegurð og jafnvægi hitta verkin áhorfandann í gegnum skynjunina. Magnús býr og starfar á Akureyri.

baldur í reykjavík.jpg

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0