Stefán V. Jónsson (Stórval)

Stefán V. Jónsson (Stórval)

Fjallið innra
15. ágúst – 5. október 2024

Opnun fimmtudaginn 15. ágúst kl. 17-19
Sýningin Fjallið innra með verkum Stefán V. Jónssonar, sem bar listamannsnafnið Stórval, opnar fimmtudaginn 15. ágúst í i8 Gallerí og mun standa til 5. október. Stórval, sem er einna helst þekktur fyrir málverk sín af Herðubreið, átti afkastamikinn feril og beinskeyttur stíll hans fangaði hjörtu fólks um allt land.
Til eru sögur af malarbónda sem var goðsögn í lifanda lífi. Sveitamaður, kvikur í hreyfingum, flakkandi um miðbæ Reykjavíkur á reiðhjóli með málverk á bögglabera. Bóndi í borg, sem heyjar á hringtorgum, spariklæddur með kaskeiti. Ríðandi á hesti inn í sjoppu að spyrja til vegar. Litríkur persónuleiki, laus við yfirborðsmennsku, þyljandi furðusögur af dýrum og fólki á Möðrudalsöræfum.

Öræfin voru fyrirheitna landið. Víðernin traustur félagi sem hlustað var eftir – fjöll, dalir, urð og grjót – ljóslifandi í minningunni. Stefán frá Möðrudal var kominn til borgarinnar en til reginfjalla sækir andinn sem á ekki afturkvæmt. Sögurnar af fjöllum gleymast nú hver af annarri, en málverk Stefáns halda stöðugt áfram að framkalla næmar sögur af lífi í afdal og samtímis mynd af listamanni sem varð til á malbikinu.

Í fjölskyldu Stefáns rúmaðist skapandi hugsun. Framkvæmdagleði og ríkur sagnaarfur einkenndu foreldra hans og þaðan runnu þeir listrænu hæfileikar sem þessi brottflutti bóndi fann skyndilega og óvænt fyrir þegar í borgarlandið umlukti hann. Þar verður listamaðurinn til án fyrirmyndar. Listamaður sem sýnir verk sín undir berum himni, á götum og torgum, eins og tíðkast erlendis, og leikur á harmonikku fyrir vegfarendur sem ganga fram hjá. Bóndi án bústofns, listmálari án sálufélaga.

Um 1955 flytur Stefán frá Austfjörðum til Reykjavíkur – þá kominn yfir miðjan aldur – þar sem hann yfirgefur frelsið og baslið í sveitinni. Í borginni vinnur hann ýmsa verkamannavinnu, með fram því að hefja sinn listræna feril af fullri alvöru. Alvöru sem var fumlaus, hiklaus og stanslaus. Málverkið varð vettvangur fyrir tilfinningar tengdar reynslu og upplifunum hans af lífinu á fjöllum. Sköpunarkrafturinn var drifinn áfram af frásagnargleði. Gleði og galsa sem einkenndi líf hans í borginni. Borgin sem veitti honum félagsskap, þar sem hann var vinamargur, síkvikur, á stöðugu flandri um bæinn.

Fyrsta sýning Stefáns innanhúss var í Gallerí SÚM 1972. Þá hafði hann haldið fjölmargar sýningar undir berum himni, á torgum, gatnamótum og undir húsveggjum í miðbæ Reykjavíkur frá árinu 1959. Í Gallerí SÚM var Stefán í félagsskap listamanna sem kunnu að meta einlægni hans og afdráttarlaust viðhorf gagnvart listinni. Vakti sýningin mikla athygli og umtal. Fjölmargir gestir sóttu sýninguna og voru veggir vel nýttir undir fjölmörg verk frá löngu tímabili – Stefán var orðinn Stórval.

Hann málaði af innlifun og sannfæringu, næmni og með bægslagangi. Myndrænar frásagnir sem sýna vötn, hæðir, bæi og fjöll, firði og flóa. Svo voru það skepnurnar, þó aðallega kindur og hestar – einsamir eða í stóðum sem voru helsta ást Stefáns. Einnig kom fjölskyldan fyrir – móðirin, ástin og gleðskapur. Hraði var helsti mælikvarði á gæði og endurtekningin sýndi ást hans á viðfangsefninu. Litanotkun var beinskeytt, óhefluð – viðfangsefnið fangað á augabragði – og efniviðurinn það sem hendi var næst.

Svo er það Herðubreið, formfögur og margbreytileg. Keimlík en aldrei eins – fjallið sem Stefán fékk aldrei nóg af. Náði ekki utan um – en var grunnur sköpunarkrafts og tilveru. Fjallið hið innra. Ókleif nema í huganum, en samkvæmt Stefáni – hol að innan. Hans Mont Sainte-Victoire, Mount Fuji – hans prívat töfrafjall.

Unnar Örn

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0