Laugardaginn 1. desember verður sýningin Hafnarfjörður – verk úr safneign opnuð í aðalsal Hafnarborgar.
Það er ekki bara Hafnfirðingum sem þykir Hafnarfjörður fallegur, heldur hefur samspil byggðarinnar og hraunsins í Hafnarfirði sömuleiðis heillað marga listmálara í gegnum tíðina. Í safneign Hafnarborgar eru fjölmörg verk sem tengjast bænum, þau elstu frá því snemma á 20. öld. Nú leitum við í þennan fjársjóð og gefum Hafnfirðingum og gestum þeirra tækifæri til að sjá hvernig staðarandi bæjarins birtist í myndlistarverkum frá því á síðustu öld. Hér má sjá bæinn í gegnum augu listamanna, þar á meðal helstu meistara íslenskrar myndlistar. Meðferð þeirra á viðfangsefninu er hefðbundin, fígúratíf nálgun þar sem þekkja má fyrirmyndina úr veruleikanum.
Hafnarfjörður er einstaklega myndrænn bær og náttúran umhverfis býður einnig upp á mikilfengleg sjónarhorn. Fyrir utan Reykjavík eru fáir þéttbýlisstaðir á Íslandi myndefni jafn margra listaverka og Hafnarfjörður. Verkin sem nú eru sýnd eru mörg úr stofngjöf hjónanna Ingibjargar Sigurjónsdóttur og Sverris Magnússonar sem ráku apótek í húsnæði Hafnarborgar um áratuga skeið. Hluti verkanna hefur undanfarin ár hangið í fundarsal bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.
Meðal listamanna sem eiga verk á sýningunni eru Nína Tryggvadóttir, Hörður Ágústsson, Jóhannes Kjarval, Jón Gunnarsson, Grétu Björnsson og Jón Engilberts.
Þessi sýning varð til á stuttum tíma þegar ákvörðun var tekin um að fresta fyrirhugaðri sýningu á verkum Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar vegna samkomutakmarkana.