Smyrlabjörg

Daglega er boðið upp á 80-90 rétta hlaðborð
Smyrlabjörg eru sveitahótel með 68 herbergjum í Suðursveit og eru þau staðsett 45 kílómetra frá Höfn í Hornafirði og 35 km frá Jökulsárlóni. Þar er stór veitingasalur sem tekur 200 manns í sæti og hentar vel fyrir ráðstefnur og fundi.

Fjárbúskapur er stundaður á bænum.
„Boðið er upp á kvöldverðarhlaðborð alla daga sumarsins sem samansett er af 80-90 réttum,“ segir Laufey Helgadóttir sem er eigandi ásamt eigimanni sínum, Sigurbirni Karlssyni.

smyrlabjorg matsalur„Við leggjum áherslu á að sem mest af hráefninu sé úr heimahéraði; við nýtum kjöt af eigin fé,kaupum nautakjöt og kartöflur frá bænum Seljavöllum, svínakjöt frá Miðserki, egg frá Grænahrauni, silung frá Hofi í Öræfum og allan annan fisk kaupum við á Höfn. Allir réttir eru búnir til  frá grunni hvort sem það eru súpur, sósur, brauð, lasagna, kjötbollur eða fiskibollur, sem og alla eftirrétti.Tilgangurinn  með þessu tengist því að fólk er orðið svo meðvitað um hvað það lætur ofan í sig. Sumir sem eru t.d. með ofnæmi þurfa að hugsa út í hvað þeir borða og aðrir gera það út af persónulegum lífstíl,“ segir Laufey en á hlaðborðinu má m.a. finna grænmetisrétti og fleiri rétti sem höfða til grænmetisneytenda og fólks með sykursýki. „Við getum sagt fólki nákvæmlega hvað er í hverjum rétti.“  Þess má geta að hugað er að þeim sem vilja súrmat en hann er einnig í boði.

smyrlabjorg veitingarÁ hótelinu eru  68 stór og björt herbergi með baði og þar af eru 10 herbergi sem eru fjölskylduherbergi eða lúxusherbergi. Morgunverðarhlaðborð er innifalið í gistingunni. Gestir fara út í fjárhús á veturna og á vorin en á sumrin eru ærnar út í haga.
„Við höfum alltaf fáeinar kindur ásamt lömbunum sínum hér í nágrenninu sem er vinsælt meðal ferðamannanna.“
Á bænum eru líka hestar, nokkrir nautgripir, hænur, endur og hundur.
Smyrlabjörg eru staðsett neðst í fjallshlíð og blasir sjórinn við; sjávarniðurinn berst upp á hótelinu og blandast fuglasöng.

-S.J.

Callout box: Við leggjum áherslu á að sem mest af hráefninu sé úr heimahéraði; við nýtum kjöt af eigin fé,kaupum nautakjöt og kartöflur frá bænum Seljavöllum, svínakjöt frá Miðserki, egg frá Grænahrauni, silung frá Hofi í Öræfum og allan annan fisk kaupum við á Höfn