• Íslenska

Sólveig ræðir þar um sýninguna þar sem hún myndgerir hin ýmsu uppgjör og leiðir sem hún hefur þurft að feta í lífinu. Dauðsföll, sorg og gleði eru partur af þrautum lífsins og óhjákvæmilegur hluti af því. Tilfinningar sem minnir á martröð getur stundum falið í sér töfra ef þeim er gefinn gaumur og rými. Þegar lífið heldur áfram leynast oft meiri töfrar og fallegri tilfinningar undir þeim erfiðu og sáru en nokkurn óraði fyrir.


Sólveig hefur unnið mikið með keramík undanfarin ár og hefur skapað undraheim sem verurnar hennar tilheyra. Náttúran, ævintýri og þjóðsögur eru hennar áhrifavaldar og í verkum hennar má oftar en ekki sjá kynjaverur úr annarri vídd. Nýlega fór Sólveig aftur að mála og hafa verurnar hennar fengið aðra birtingarmynd á striganum og einkennast af hráum og bernskum tónum. Í málverkinu fá verurnar hennar frelsi þar sem flæði, litagleði og óhefðbundin form njóta sín.
Sólveig Hólmarsdóttir útskrifaðist úr Myndlistarskóla Reykjavíkur árið 1995 og var í starfsnámi hjá Kolbrúnu Björgólfsdóttir (Koggu) frá árunum 1991-1996. Einnig stundaði hún nám við Escola Massana ‘Art Disseney í Barcelona á Spáni. Sólveig hefur haldið fjölda einkasýninga og samsýninga í Evrópu og í Bandaríkjunum.

Sólveig Hólmarsdóttir Myndlistamaður

Einkasýning Sólveigar Hólmarsdóttur í Galleríi Fold. Sýningin stendur til og með 29. ágúst.