Sýning á verkum Elíasar B. Halldórssonar sem nú stendur yfir í Sverrissal Hafnarborgar hefur verið framlengd til sunnudagsins 11. Janúar.

Elias-myndVerkin á sýningunni eru grafíkverk sem Elías vann flest frá 1963 til aldamóta. Þau eru að stærstum hluta tréristur, sem sýna fjölbreytt myndefni allt frá daglegu amstri til nautnafullra athafna og myndefni sem hann vann útfrá ljóðum eða öðrum textum. Á sýningunni eru meðal annars verk sem hann vann við ljóð sonar síns Gyrðis Elíassonar. Sýningin bregður upp myndheimi listamanns sem hóf feril sinn um miðja síðustu öld, fór ætíð eigin leiðir og sigldi til hliðar við meginstraum myndlistarinnar. Sýningargestir fá innsýn inn í heim sem oft virðist dimmur en er jafnframt glettinn, kraftmikill og ríkur af hugmyndum þegar kemur að útfærslu teikningarinnar í fast form tréristunnar. Listamanninum tekst að koma til skila andrúmslofti í einföldu formi tréristunnar þar sem efniviður og viðfangsefni skapa áhugaverðan heim.     

Elías B. Halldórsson, (1930-2007), er fæddur á Borgarfirði Eystra. Hann stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskólann og hélt svo erlendis í framhaldsnám, fyrst til Stuttgart í Þýskalandi og síðar til Kaupmannahafnar. Fyrstu einkasýningu sína hélt Elías í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1960 og árið 1992 sýndi hann í fyrsta skipti í Hafnarborg.

Frekari upplýsingar veitir:
Áslaug Friðjónsdóttir, s. 525 5190, gsm. 694 3457