VARA-LITIR – Hafnarborg

Sunset-GabríelaFriðriksdóttir-2013Laugardaginn 1. nóvember verður sýningin Vara-litir opnuð í Hafnarborg. Þetta er sýning á málverkum eftir sjö samtíma myndlistarmenn sem allir eru fæddir eftir 1970 og vinna markvisst að málaralist í sköpun sinni. Á sýningunni eru ný verk eftir Gabríelu Friðriksdóttur, Guðmund Thoroddsen, Helga Þórsson, Huldu Vilhjálmsdóttur, Ragnar Þórisson, Þorvald Jónsson og Þórdísi Aðalsteinsdóttur.  Sýningarstjóri er Birta Fróðadóttir.

Sýningin Vara-litir einkennist af litaflaumi og frásagnargleði. Bjartir og fjörmiklir litir eru áberandi á sýningunni og undirstrika óttaleysi og hispurslausa tjáningu listamannanna. Verkin eru öll hlutbundin en listamennirnir fást við myndefni sem þau vinna á persónulegan hátt bæði  hvað varðar myndræna útfærslu og vinnuaðferðir. Innri barátta, sálarflækjur og æpandi einsemd eru undirliggjandi í verkum Huldu Vilhjálmsdóttur og Ragnars Þórissonar. Dýrslegar kynjaverur úr furðuveröld undirmeðvitundarinnar kallast á í verkum Gabríelu Friðriksdóttur og Þórdísar Aðalsteinsdóttur. Í verkum Helga Þórssonar, Þorvaldar Jónssonar og Guðmundar Thoroddsen má finna skírskotun í ævintýralega kímnigáfu, leik og gáska bernskunnar. Birta Fróðadóttir sýningarstjóri og arkitekt teflir þessum ólíku nálgunum saman í sýningunni og leitast við að lesa úr verkunum í tíðaranda samtímans.

Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera hlaðin litum og formum sem endurspegla tíðaranda 21. aldarinnar, þar sem ofgnótt upplýsinga hleður hvert augnablik. Í verkunum kallast á margslungnir heimar ólíkra listamanna þar sem hlutir og verur leika lausum hala. Sýningin streymir um rýmið og persónuleg sköpun rennur saman við heildarflæði sýningarinnar. Taumlaus tjáning og litagleði Vara-lita er kærkomin hressing í rökkvuðu skammdeginu – og aðdráttarafl verkanna í heild óhjákvæmilegt.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0