Heia taka 2Vaxborinn arfur  Heiðrún Kristjánsdóttir

Gamlar bækur eru efniviðurinn í sýningu Heiðrúnar Kristjánsdóttur í Reykjavík Art Gallerí
Kjölfesta er heiti sýningar Heiðrúnar Kristjánsdóttur sem stendur yfir í Reykjavík Art Gallerí. Verkin á sýningunni eru unnin úr bókum og segir Heiðrún markmiðið vera að draga fram og sýna sem sjálfstæð myndverk, þann sjónræna menningararf sem liggur í bókarkápum, í handverki, gyllingu, áferð, týpógrafíu og titlum.
„Við sjáum alltaf bara kilina en bókakápurnar eru faldar. En eins og svo margir Íslendingar, hef ég ástríðu fyrir bókum og bókakápum. Mér finnst dásamlegt að strjúka þeim, fletta þeim, finna lyktina af þeim. Þegar ég var barn, gekk ég um salina í Borgarbókasafninu, renndi hendinni eftir kjölunum og las titlana. Það var svo mikil eftirvænting í mér; að ég ætti einhvern tímann eftir að lesa þessar bækur. Þær myndu skýra alla leyndardóma. Mér fannst þær svo fallegar og spennandi.“
Leið eins og ég væri að leiða fé til slátrunar
Kjolfesta-Opnun 191Svo gerðist það fyrir tveimur árum að ég varð vitni að því að verið var að henda á haugana heilu kössunum af gömlum, fallegum bókum. Mér rann þetta til rifja og áður en ég vissi af var ég farin að  ,,bjarga“  bókunum . Mig langaði að gera úr þeim einhvers konar minnisvarða eða minningu um þann tíma þegar mikið var lagt í bókakápur, tíma afa og ömmu, pabba og mömmu – og æsku minnar. Ég hjúpaði bókakápurnar bívaxi með ævafornri aðferð, þannig að þær eru forvarðar og geta varðveist um hundruðir ára. “
Heiðrún er grafíklistakona að mennt, lærði í Myndlista- og handíðaskólanum hér heima en lauk námi frá San Francisco Art Institute árið 1985. Hún hefur unnið á bókasöfnum en lengst af sem myndlistakennari, síðast í Vogaskóla í Reykjavík. „ Ég hef lesið töluvert af þeim bókum sem ég er að vinna með, sem eru yfir 600 titlar. Síðustu tvö árin hef ég því endurmenntað mig í íslenskri menningu frá 1900 til 1970. Það kom mér á óvart hve margar merkilegar, athyglisverðar og skemmtilegar bækur leyndust inn á milli, bækur sem ég hefði aldrei rekist á öðru vísi. Í fyrstu þótti mér erfitt að taka bækurnar í sundur og „eyðileggja“ þær.  Ég er alin upp við að maður eigi að fara vel með bækur, til dæmis ekki skilja þær eftir opnar. Að rífa þær úr kili sínum var algert skemmdarverk. Sú tilfinning hjaðnaði smám saman eftir að mynd fór að komast á verkin og mér fannst bækurnar ekki hafa týnt lífi sínu heldur öðlast nýtt líf í samfélagi við bræður og systur. En ég fórnaði  þessum bókum til að viðhalda minningu þeirra í öðru formi.“

_MG_3771_MG_3775
Braut um hugmyndaheim
Kveikjan að sýningunni segir Heiðrún að hafi verið bókatitlarnir. „Ég byrjaði að fókusera á þessa gömlu dramatísku og háfleygu bókatitla sem mér fannst hvísla til mín úr bókaskápunum. Þetta var eins og neyðarkall. Ég tók bækurnar úr hillunum, skoðaði vandlega og fór svo að stilla þeim upp til að sjá hvernig þær virkuðu saman út frá lit, áferð, stærð, og ekki síst titlunum sjálfum. Þarna fannst mér komið eitthvað nýtt, bækurnar tóku á sig nýja mynd án þess þó að glata sínum karakter. Hvert verk fékk sitt eigið innra samhengi og sögu.
Heidrun_Kristjansdottir_icelandictimesHeiðrún segir heiti sýningarinnar, Kjölfesta, hafa margvíslegar tilvísanir. Fyrir utan augljósa tengingu við kili bókanna má til dæmis hugsa sér festu, öryggi, línu eða braut. Braut um hugmyndaheiminn. „Hann er svo víður að hver og einn verður að velja sér leið, sem verður kjölfesta hans,“ segir hún. „Rithöfundar velja sér grunn sem er þeirra kjölfesta. Aðrir lesa bækurnar og smám saman myndast menningarleg kjölfesta meðal lesenda.

_MG_3767
Hin dularfulla innri sýn
Á sýningunni eru þó ekki einungis sýndar bókakápur, heldur er inntaki bókanna gerð skil í myndum sem búnar eru til úr síðum bókanna og mynda annars vegar sexhyrninga og hins vegar hringi. Þetta eru viðkvæmnisleg og fínleg verk og viss andstæða við bókakápurnar. Verkin vísa til þeirra áhrifa sem bækur, viðkoma þeirra, útlit og efni hafa á þann sem meðhöndlar þær.
2012-09-29 18.05.19Í dag er internetið tekið við stórum hluta útgáfustarfsemi. Gamla bókin er á undanhaldi og það er mest gefið út í kiljum. Ipadinn og kyndillinn eru bókakápur nútímans. Sýningin er því að vissu leyti til heiðurs gömlu handverki og til minningar um bókina eins og hún var á 19. og 20. öldinni; pappír, tau, leður, gylling og prentsverta. „Þessar bókakápur eru hluti af sjónrænum menningararfi þjóðarinnar.“
[email protected]

 

Frænkurnar Guðrún Stefánsdóttir arkitekt og Heiðrún Kristjánsdóttir á vinnustofunni.