Svörður // Trausti Dagsson

Svörður // Trausti Dagsson 

Á sýningunni Svörður verða sýndar ljósmyndir af örsmáum fyrirbrigðum í náttúrunni sem fangaðar eru með macrolinsu og stækkaðar upp. Með henni er ætlunin að vekja athygli á hinu smásæja en fjölbreytilega neðra landslagi.
Á sýningunni birtast furðuleg fyrirbrigði; mosabaukar, fléttubikarar, sveppir og fleira. Ekki er um að ræða tilraun til að lýsa náttúrunni á fræðandi hátt heldur draga fram töfrandi furðuheim sem leynist við fætur okkar en við sjaldan gefum gaum. Náttúran er sýnd í óvenjulegu samhengi og leiðir hugann að því hversu einstæð heild lífheimurinn er, þar sem í öllum stærðum og gerðum leynast furðuverur sem við sem mannkyn eigum allt undir og deilum stórum hluta erfðaefnis með – okkar fjarskyldu ættingjar.
Efra landslagið er það sem við sjáum í kringum okkur, fjöll, dalir, nes og firðir, landslagið sem þýtur hjá þegar við keyrum um landið. Neðra landslagið er það sem líður hjá undir okkur þegar við göngum.
Að ferðast um þetta neðra landslag, að leggjast á magann á mel, í móa eða á kletti og rýna í smáatriðin í sverðinum er stórkostlegt ævintýri. Þar leynist sannkölluð furðuveröld undarlegs lífs, flóknum og framandi formum og verum sem eru að grunninum úr sama efni og við en samt svo ólíkar okkur.
Að fanga þennan heim er barátta við óreiðu, ljósið sem flæðir allt í kringum okkur verður nánast áþreifanlegt þarna niðri. Linsan sem tekur á móti ljósinu fókusar aðeins á örmjóa himnu í senn, aðeins það sem er í brennidepli sést skírt, allt hitt er þoka ‒ ljósþoka og óreiða. Óstyrkar hendur eiga fullt í fangi með að halda á myndavélinni, örlítil hreyfing veldur því að viðfangsefnið hverfur í þokuna. Þessi þunna himna skírleikans minnir okkur á ljósið sem flæðir allt í kringum okkur.
Ljósmyndirnar eru flestar teknar í námunda við höfuðborgarsvæðið, meðal annars í Heiðmörk, í Stekkjarhrauni við Setbergið í Hafnarfirði og í kringum Helgafell.
Trausti Dagsson er með BA próf í ritlist frá Háskóla Íslands og MA gráðu í hagnýtri þjóðfræði frá sama skóla. Hann starfar sem verkefnastjóri og forritari hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hefur langa reynslu af hönnun og framsetningu gagna. Hann hefur unnið ýmis hönnunar- og forritunarverkefni fyrir aðila hérlendis og erlendis eins og Reykjavík International Film Festival, Leikfélag Akureyrar, Háskólann í Gautaborg auk fjölda sjálfstæðra verkefna. Hann hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum.
Sérstök sýningaropnun verður fimmtudaginn 27.apríl frá 18:00-20:00 og allir hjartanlega velkomnir!
Viðburðurinn er styrktur af Menningar og ferðamálanefnd Hafnarfjarðarbæjar.
Ef þú vilt afskrá þig af gestalista LG smelltu þá hér og láttu okkur vita.

 

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0