Á myndinni eru Borgarstjórinn í Reykjavík, Einar Þorsteinsson, Danielle Kvaran sýningarstjóri, Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og Erró. Mynd: Aldís Snorradóttir.

Erró sýning opnuð í Angoulême í Frakklandi

Í gær var opnuð í Angoulême listasafninu í Frakklandi sýning úr safneign Listasafns Reykjavíkur á verkum Errós. Sýningin ber yfirskriftina Erró, listasagan endurskoðuð ( Erró, l’histoire de l’art revisitée) og er á þremur hæðum Angoulême-safnsins. Sýningarstjóri er Danielle Kvaran, Erró sérfræðingur Listasafns Reykjavíkur. Angoulême er bókmenntaborg UNESCO líkt og Reykjavík og er hún þekktust fyrir að vera borg myndasögunnar.

Í Angoulême er að finna fjöldamörg útilistaverk með vísun í teikimyndir og gerði Erró það fyrsta árið 1982. Árlega er þar haldin virt alþjóðleg teiknimyndahátíð sem nýtur gríðarlegra vinsælda, en ár hvert koma um 200 þúsund gestir til borgarinnar gagngert til að vera viðstaddir hátíðina sem hóf göngu sína árið 1974.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri Reykjavíkur hélt ræðu við opnunina. Árið 1989 gaf Erró Reykjavíkurborg stórt safn verka sinna, um 2.000 talsins. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt síðustu árin því að Erró hefur haldið áfram að bæta við gjöfina og keypt hafa verið verk í safnið – sem telur nú um 4.000 listaverk. Sýningar úr safni Errós eiga sér fastan sess í Hafnarhúsinu, en með þeim er leitast við að gefa sem besta mynd af fjölbreyttum áherslum í verkum listamannsins.

Á síðustu 2 árum hefur Listasafn Reykjavíkur sett upp sýningar á verkum Errós í ARoS safninu í Árósum, Þjóðarlistarsafninu í Svartfjallalandi og núna í Angoulême safninu í Frakklandi. Sýningin verður opnuð almenningi í dag, 21. júní, og mun hún standa til 8. desember 2024.

Nánari upplýsingar veitir Nathalía Druzin Halldórsdóttir kynningarstjóri Listasafns Reykjavíkur.
Netfang: [email protected] / sími: 8201201.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0