Borgartúnið 

Það hafa fáar götur í Reykjavík, ef nokkur, tekið eins miklum stakkaskiptum og Borgartún, gata sem liggur frá Snorrabraut austur að Kringlumýrarbraut. Í fyrsta skipulagsuppdrætti fyrir Reykjavík sem var samþykktur 1927, var gert ráð fyrir að höfuðborgin myndi rúmast innan Hringbrautar / Snorrabrautar. Þegar á fjórða áratugnum tók byggðin að teygja sig austur fyrir Snorrabraut, og í kringum miðja 20. öld, í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar byggðust upp Hlíðarnar og Rauðarárholt. Síðan byggðist Laugarnesið, og um leið byggist upp atvinnustarfsemi við strandlengjuna, þar sem nú er Borgartún. Í aðalskipulaginu frá 1962 var svæðið þar sem nú er Borgartún, skilgreint sem blandað iðnaðar- og vörugeymslusvæði. Enda höfðu mörg fyrirtæki komið sér upp skemmum, eins og Eimskip á svæðinu, og þó nokkrar vélsmiðjur og bifreiðaverkstæði á stórum lóðum einkenndu götumynd Borgartúns. Á síðustu 40 árum hefur gatan breytt algjörlega um svip, stór skrifstofuhúsnæði einkenna nú götuna, enda var Borgartún táknmynd hrunsins 2008, en fjöldi fjármálafyrirtækja var og er enn við Borgartún. Líka fyrirtæki eins og Hagstofa Íslands, Þjóðskrá, Origo, stærsta tæknifyrirtæki landsins, auk fjölda veitingastaða. Frímúrarareglan er með húsnæði við Borgartún, Vegagerðin er búin að vera þarna í næstum 70 ár en er á förum, og við götuna standa tvö sendiráð, neðst við Snorrabraut, það Kínverska, og það Pólska, á horni Þórunnartúns og Borgartúns. Reykjavíkurborg er með lungað af sínu skrifstofufólki í Höfðatorgi við Borgartún. Þar ská á móti er Höfði, móttökuhús Reykjavíkur, og eitt af þekktustu húsum höfuðborgarinnar, en þar héldu Reagan forseti Bandaríkjanna og Gorbachev aðalritari Sovétríkjanna frægan fund í október 1986, fund sem markaði endalok kalda stríðsins og hrun Sovétríkjanna. Líklega, ef þeir væru á lífi núna, myndu þeir ekki þekkja sig aftur í Borgartúni, þar sem þeir sátu saman á maraþonfundum dagana 11. og 12. október fyrir 37 árum síðan.

Höfði

Það er enn verið að byggja og breyta Borgartúni

Turninn á Höfðatorgi nær upp í himininn

Hluti Berlínarmúrsins…. í Borgartúni

Horft austur Borgartún, Hrafnista lengst í bakgrunni

Horft niður, vestur Borgartún, Pólska sendiráðið fremst á myndinni

Kínverska sendiráðið

Höfuðstöðvar Origo

Höfuðstöðvar Arion Banka

Ljósmyndir & texti: Páll Stefánsson
Reykjavík  29/08/2023 : RX1R II, A7C, A7R V : 2.0/35mm Z, FE 2.8/100mm GM, FE 1.8/14mm GM