Einn af mörgum fagurlega mynduðum öskugígum í Vatnaöldum á Torfajökulsvæðinu

Eldstöðvakerfi Torfajökuls

Einn af mörgum fagurlega mynduðum öskugígum í Vatnaöldum á Torfajökulsvæðinu
Eldstöðvakerfi Torfajökuls

Eldstöðvakerfið hefur haft hægt um sig síðustu aldir og áratugi en nýlega bárust fréttir af því að svæðið er að vakna til lífsins; þar hefur mælist nokkurt landris og aukin tíðni jarðskjálfta. Því er ekki úr vegi að skoða glefsur úr gossögu síðustu alda með nokkrum myndum af svæðinu sem ég hef tekið síðustu 30 til 40 árin.

Alls staðar má finna gíga af öllum stærðum fagurlega mótaða á Torfajökulsvæðinu, þessi mynd er tekin í Veiðivötnum
Torfajökulsaskjan

Á sunnanverðu hálendinu, norður af Mýrdalsjökli er mikil eldstöð sem kennd hefur verið við Torfajökul. Eldstöðin einkennist af mikilli öskju og er þvermál hennar um 18 km í A-V stefnu og um 12 km í N-S stefnu. Flatarmálið er um 150 km2. Torfajökull liggur á suðausturjaðri öskjunnar en Landmannalaugar við norðurjaðarinn. Hrafntinnusker er nærri miðju öskjunnar. Örfajökulssvæðið er mesta líparítsvæði landsins með afar litríku landslagi og óviðjafnanlegri náttúrufegurð.  Innan öskjunnar er jafnframt stærsta og öflugasta jarðhitasvæðið landsins.

Við rætur Torfajökuls þar sem sjá má í topp jökulsinn. Þarna er landslagið stórbrotið ógnvænlegt og fagurt að sjá.
Jarðhitasvæðið

Í heild nær jarðhitasvæðið yfir meira en 100 km2. Þar eru fjöl­breytt­ar aðstæður á yf­ir­borði sem valda því að á svæðinu eru marg­ar gerðir af mis­mun­andi hver­um og laug­um, s.s. leirhverir, vatnshverir, gufuhverir, brennisteinsþúfur og ummyndunarbreiður. Víða eru volgar ölkeldur og við jaðar háhitasvæðisins eru kolsýruhverir og laugar. Þekktasti hluti jarðitasvæðisins eru Landmannalaugar sem eru aðeins lítill hluti þess.

Eldstöðvakerfi Bárðarbungu

Athyglisvert er að eldvirkni á nútíma hefur orðið í kjölfar gangainnskota frá nálægum eldstöðvakerfum. Gossprungur sem rifnað hafa til suðvesturs frá Bárðarbungu hafa náð að teygja sig inn í kvikuhólf undir Torfajökulsöskjunni og valda þar eldgosum. Eldgos af þessum toga hafa tvívegis orðið frá því um og eftir landnám.

Vatnaöldugos

Um 870 varð mikið eldgos í suðvestur hlutanum af gosrein Bárðarbungu og teygði þessi eldvirkni sig inn í Torfajökulsöskjuna og enn lengra til suðvesturs. Í gosinu kom upp gríðarmikil gjóska sem þakti meira en helming landsins. Gjóskulagið sem til var hefur verið nefnt landnámslag vegna tímasetningarinnar nærri upphafi landnáms norrænna manna á Íslandi. Gígaröðin Vatnaöldur myndaðist ásamt Hnausapolli og innan öskjunnar rann Hrafntinnuhraun. Einnig rann í þessu gosi Laufahraun suðvestan við Laufafell.

Veiðivötn er óhætt er að segja að séu ein rómuðustu, gjöfulustu og frægustu veiðivötn landsins. Um er að ræða vatnaklasa í Torfajökuls svæðinu sem samanstendur af allt að 50 vötnum, sem mörg hver eru sprengigígar. Bæði lítil sem stór vötn. Flestir telja Veiðivötn og veiðivatnasvæðið eitt það fallegasta á landinu.
Veiðivatnagos

Árið 1477 varð gos í Bárðarbungu og einnig mikið eldgos í suðvestur hlutanum af gosreininni. Sem fyrr teygði gossprungan sig inn í Torfajökulsöskjuna. Gríðarmikið gjóskugos varð í Veiðivötnum en sunnan við Tungnaá myndaðist Ljótipollur og á Torfajökulssvæðinu runnu Laugahraun, Námshraun og fleiri hraun. Þá fyrst urðu Landmannalaugar til, nokkurn veginn í núverandi mynd.

Kirkjufellsvatn í Myndinni er aðeins um níu kílómetra frá Torfajökli sem er aðeins til vinstri í bakgrunn myndarinnar. Það er skammt sunnan Landmannaleiðar og greiðfært að því. Umhverfið er nokkuð gróið og mjög fagurt.
Þjórsárhraunið mikla

Mesta eldgos í eldstöðvakerfi Bárðarbungu á nútíma varð fyrir um 8600 árum, u.þ.b. á svæðinu þar sem nú eru Vatnaöldur. Þá rann hraun niður með Tungnaá og Þjórsá að ofan og niður í Þjórsárdal og Landsveit. Hraunið rann áfram niður á láglendið á Skeiðum og til sjávar í Flóanum. Þegar hraunið rann var sjávarstaða um 15 m lægri en nú er og því rann hraunið alllangt út fyrir núverandi strönd þar sem nú eru sker úti fyrir ströndinni eins og sjá má við Eyrarbakka og Stokkseyri. Alls hefur þetta mikla hraun runnið rúmlega 120 km leið til sjávar.

Gosbyrjun

Erfitt er að segja til um hvenær gos hefst á svæðinu eða hvar og hversu stór gosin eða gosið myndu verða. En gos á þessu svæði myndi halda gangandi stöðugri mótun landsins.

Þorsteinn Ásgeirsson, ljósmyndari og textahöfundur