Framkvæmdir hefjast við Þeistareykjavirkjun

Þeistareykjavirkjun er komin á framkvæmdastig, en undirritun samninga um byggingu stöðvarhúss og veitna í dag markar upphaf þessarar stærstu framkvæmdar Landsvirkjunar síðan Búðarhálsstöð var vígð í fyrravor.

the-stodvarhussHörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

    „Þetta er einkar ánægjulegur áfangi fyrir okkur hjá Landsvirkjun. Við höfum lagt mikla vinnu í undirbúning Þeistareykjavirkjunar í mörg ár og allan þann tíma lagt áherslu á góða umgengni við umhverfi og sátt við samfélagið.  Það er gott til þess að vita að innan þriggja ára getum við hafist handa við að framleiða frekari verðmæti fyrir eigendur okkar, íslensku þjóðina, úr þeirri auðlind sem við eigum saman.“

Unnið hefur verið að undirbúningi jarðvarmavirkjunar við Þeistareyki til fjölda ára, en gert er ráð fyrir að þessi 45 MW virkjunaráfangi verði fyrsta skrefið í varfærinni uppbyggingu sjálfbærrar jarðvarmavinnslu á svæðinu. Stefnt er að því að virkjunin hefji rekstur haustið 2017. Boraðar hafa verið átta vinnsluholur, sem skila gufu sem jafngildir um 50 MW rafafli, eða einni aflvél.
Undirbúningur miðast við sérstöðu Þeistareykja

Þeistareykjajörð er gömul landnámsjörð sem liggur suðaustur af Húsavík; frá Höfuðreiðarmúla í norðri og suður undir Kvíhólafjöll og frá Lambafjöllum í vestri að Ketilfjalli og Bæjarfjalli í austri. Jörðin er nú í eigu Þingeyjarsveitar.

theystireykir 804986Allur undirbúningur Þeistareykjavirkjunar hefur tekið mið af sérstöðu svæðisins, sem er nær ósnortið ef frá eru taldar búsetuminjar og ummerki um brennisteinsnám á öldum áður. Í skipulagsáætlunum hafa því verið afmörkuð verndarsvæði vegna náttúru- og fornminja.

Við hönnun virkjunar hefur verið hugað að áhrifum á landslag og ásýnd svæðisins. Framkvæmdir hafa því verið skipulagðar á þann hátt að landmótun og frágangur fer fram samhliða uppbyggingu.
Hátt í 200 starfsmenn við vinnu þegar mest verður

Heildarfjárhæð samninganna við LNS Sögu um byggingu stöðvarhúss og veitna er um 6,6 milljarðar króna, en áætlanir gera ráð fyrir að heildarkostnaður við fyrsta áfanga virkjunarinnar nemi á bilinu 20 til 24 milljarða króna. Þegar mest verður munu hátt í 200 starfsmenn vera við vinnu á svæðinu á framkvæmdatímabilinu.

Stöðvarhúsið samanstendur af þjónustubyggingu og verkstæði ásamt tveimur vélasölum. Byggð verður skiljustöð, niðurrennslismannvirki og dælustöð fyrir kaldavatnsveitu ásamt því að leggja gufupípur að þremur núverandi borsvæðum. Gert er ráð fyrir því að starfsmenn LNS Sögu mæti á svæðið og hefji undirbúning framkvæmda á næstu vikum, en ef allt fer eftir áætlun fara byggingarframkvæmdir fram árin 2015 og 16 og uppsetning á vélum og öðrum búnaði 2017. Stefnt er að því að Þeistareykjastöð verði tengd Landsneti sumarið 2017 og hefji framleiðslu inn á kerfið í október sama ár.

Gengið hefur verið frá meginsamningum vegna framkvæmdarinnar, en stærstu samningarnir eru þeir ofannefndu, um byggingu stöðvarhúss og veitna, auk samninga við Fuji og Balcke Dürr um kaup á 45 MW vélasamstæðu sem tilkynntir voru í febrúar.
Umfangsmiklar rannsóknir 2014

Sumarið 2014 var vatnsveita virkjunarinnar lögð og grafið fyrir grunni stöðvarhúss. Þá voru jafnframt boraðar vatnstöku-, niðurrennslis- og svelgholur, ásamt rannsóknarholum til að efla enn frekar rannsóknir á grunnvatni.

Síðasta sumar var einnig unnið að lokafrágangi virkjunarvegar fyrstu 15 kílómetrana frá Húsavík að Þeistareykjum. Gengið var frá vegköntum og efnisnámum sem nýttar voru til verksins. Endanlegur frágangur á vegi fer fram í sumar og verður lagt bundið slitlag alla leið að stöðvarhússlóð. Þá var lokið við uppsetningu vinnubúða Landsvirkjunar og hluta af vinnubúðum fyrir verktaka, auk þess sem unnið var að raf- og fjarskiptavæðingu á svæðinu í samvinnu við Landsnet.
Fimm ára samningur við Landgræðslu ríkisins

Landsvirkjun hefur gert samning við Landgræðslu ríkisins til fimm ára um utanumhald og verkstjórn viðamikils uppgræðsluverkefnis, en gert hefur verið samkomulag við landeigendur um endurheimtarsvæði í Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Alls voru græddir upp 120 hektarar lands í fyrra og ráðgert er að 187 hektarar verði græddir upp í ár.
Samráð við nærsamfélagið

Landsvirkjunhefur lagt mikla áhersla á samráð og upplýsingar um framgang verkefnisins til nærsamfélagsinsog átt náið samstarf við sveitarstjórnir á svæðinu. M.a. voru haldnir íbúafundir í Þingeyjarsveit og Norðurþingi tvisvar á síðasta ári.
Tækifæri í ferðaþjónustu

Samhliða framkvæmdinni batnar aðgengi almennings og ferðamanna að náttúruperlum Þeistareykja til muna. Í því ljósi hélt Landsvirkjun samráðsfund með ferðaþjónustuaðilum vegna framkvæmda við Þeistareyki í janúarmánuði. Þar var m.a. ákveðið að mynda samráðsvettvang um ferðamennsku á Þeistareykjum, þar sem sæti ættu m.a. fulltrúar ferðaþjónustunnar, Landsvirkjunar, sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar og bænda, auk annarra opinberra aðila. Samdóma álit fundarmanna var að stýra þyrfti umferð ferðamanna um svæðið út frá sjónarmiðum um verndun náttúru og öryggi á framkvæmdatíma.
Vöktun til að meta áhrif á umhverfið

Landsvirkjun stundar umhverfisvöktun á virkjunarsvæðinu; vaktar fugla og mælir m.a. loftgæði, jarðskjálfta og hljóð, í því augnamiði að öðlast þekkingu á grunnástandi umhverfisþátta áður en rekstur virkjunar hefst. Með því verður hægt að sjá hver áhrif jarðvarmavirkjunarinnar verða á umhverfið.