Fríkirkjuvegurinn með sínum friðuðu húsum

Það eru sex hús á Fríkirkjuvegi sem liggur austanmegin samhliða Reykjavíkurtjörn í miðbæ Reykjavíkur. Fimm af þessum húsum, öll nema Fríkirkjuvegur 7, sem hýsir Listasafn Íslands eru friðuð. Byrjað var að leggja Fríkirkjuveg, suður af Lækjargötu árið 1903, en elsta húsið við götuna við gatnamót Lækjargötu er gamli Miðbæjarskólinn, nú Kvennaskólinn í Reykjavík, en húsið var reist árið 1898. Yngsta húsið við þessa 280 metra löngu götu er hús Listasafns Íslands, en upphaflega var húsið byggt sem íshús árið 1917. Við götuna eru tvö fyrrverandi íbúðarhús, Fríkirkjuvegur 3, sem Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur byggði og hýsir nú skrifstofur fjárfestingafélagsins Fossa. Fríkirkjuvegur 11 er veglegt hús við suðurenda götunnar, byggt af athafnamanninum Thor Jensen, og nú í eigu langafabarns hans, Björgólfs Thor Björgólfssonar athafnamanns. Hann keypti húsið af Reykjavíkurborg fyrir 15 árum og hefur gert það upp af myndarskap. Umhverfis húsið er Hallargarðurinn, fallegur almenningsgarður.

Fríkirkjuvegur 5

Horft norður Fríkirkjuveg, Ráðhús Reykjavíkur við enda tjarnarinnar til vinstri

Miðbæjarskólinn, byggður 1898, Hallgrímskirkja í bakgrunni

Hallargarðurinn, styttan Adonis eftir Bertel Thorvaldsen í forgrunni, Fríkirkjuvegur 11 í bakgrunni

Horft frá Ráðhúsinu yfir Tjörnina, Fríkirkjan og listasafn Íslands til hægri

Garðhýsið í Hallargarðinum

Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson
Reykjavík 15/08/2023 : A7R IV, RX1R II : FE 2.8/100mm GM, 2.0/35mm Z