Stóð eftir Ragnar Kjartansson frá árinu 1963 við innganginn að Einarsgarði við Smáragötu

Garður Einars

Reykjavík er græn borg. Það eru mörg og stór græn útivistarsvæði um alla borg, stærst er Heiðmörk í útjarðri austurborgarinnar. Laugardalurinn, Fossvogsdalurinn, Elliðarárdalurinn og Klambratún eru líklega mest sóttu útivistarsvæðin, en líklega er Einarsgarður við Laufásveg, Smáragötu og Gömlu Hringbraut minnsti garðurinn. Fallegur garður, með tvö listaverk. Gróðrarstöðin er stofnuð þarna árið 1899, þegar íslenska ríkið og Búnaðarfjelag Íslands settu upp gróðrarstöð við suðurenda Laufásvegar við Hringbraut. Flest tré í fyrri hluta síðustu aldar í Reykjavík komu frá gróðrarstöðinni.  Forstöðumaður var garðyrkjufræðingurinn Einar Helgason. Svæðið varð almenningsgarður árið 1943 eftir að gróðrarstöðin lagði upp laupana 1931. Garðurinn er kenndur við fyrrnefndan Einar. Garðurinn er lítill, 14 dagsláttur að stærð eins og segir árið 1899. Í næsta nágrenni er Kennaraskólinn gamli, Landspítalinn, Umferðarmiðstöðin og auðvitað Hljómskálagarðurinn sem liggur nokkur hundrað metra til vesturs. Semsagt í miðjum miðbænum. Næstumþví.

Pomona, eftir Johannes Berg, vígt 1954, er í hjarta Einarsgarðs
Mikið blómaskrúð er í Einarsgarði
Pomona fylgist vel með framkvæmdum á nýja Landspítalanum
Strætóstoppistöðin við Einarsgarð á Gömlu-Hringbraut, við Umferðamiðstöðina
Til hægri Einarsgarður, síðan nýi Landspítalinn og gamli Kennaraskólinn til vinstri

Ljósmyndir & texti: Páll Stefánsson
Reykjavík  30/08/2023 : RX1R II : 2.0/35mm Z