Háteigur

Í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. var farið að ræsa fram mýrarnar í landi Reykjavíkur og úthluta úr þeim ræktunarlöndum. Þessi lönd voru leigð með erfðafesturétti, sem þýðir að leigan gekk í erfðir. Á erfðafestulöndunum risu nýbýli þar sem hafin var túnrækt og búskapur í stórum og smáum stíl. Á Norðurmýrarblettum, sem úthlutað var í Norðurmýri og á svæðinu milli Rauðarárholts og Öskjuhlíðar, risu allmörg erfðafestubýli, eitt þeirra var Háteigur.

Bæjarhús Háteigs stóðu ofar í holtinu og á núverandi horni Háteigsvegar og Lönguhlíðar stendur enn íbúðarhús (Háteigsvegur 36) sem tilheyrði býlinu. Þetta er reisulegt steinshús í nýbarokkstíl, reist árið 1920 af hjónunum Halldóri Kr. Þorsteinssyni skipstjóra og útgerðarmanni (1877-1966) og Ragnhildi Pétursdóttur (1880-1961). Landið keyptu þau árið 1914 af Guðmundi Jafetssyni (1845-1918) en hann hafði byggt þar lítið timburhús árið 1907 sem kallaðist Háteigur. Það hús stóð þar sem nú er gatan Langahlíð og var seinna kallað Litli-Háteigur. Gata sem lögð var frá Rauðarárstíg að Háteigi og áfram upp á holtið á þessum tíma var nefnd Háteigsvegur eftir býlinu. Halldór og Ragnhildur voru þjóðþekkt fólk, en Halldór var meðal annars skipstjóri á Jóni forseta, fyrsta togaranum sem smíðaður var fyrir Íslendinga. Ragnhildur var landskunn fyrir afskipti sín af félags- og menningarmálum og að Háteigi stundaði hún kúabúskap um aldarfjórðungsskeið. Voru þar oftast um tíu gripir í fjósi og munu hafa verið með nytjahæstu kúm á landinu. Árið 1945 var landið tekið úr erfðafestu vegna skipulags íbúðarbyggðar í holtinu og lagningar Lönguhlíðar. Húsið Litli-Háteigur mun þá hafa verið flutt að Skipasundi. Skólagarðar voru síðan á hluta af túnum Háteigs og seinna urðu þau hluti af almenningsgarðinum Klambratúni.

Skólagarðar á Klambratúni 1956. Húsið Háteigur er fyrir miðri mynd (grátt hús). Ljósmynd: Gunnar Rúnar Ólafsson

Sjómannadagurinn 1944, hópur fólks á Rauðarárholti í Reykjavík. Skrúðganga kemur upp Háteigsveg, fyrir miðri mynd má sjá húsið Háteig. Þennan dag var hornsteinn lagður að Sjómannaskólanum í Reykjavík. Ljósmynd: Karl Christian Nielsen

Horft vestur frá Háteigsvegi um 1940. Fremst á myndinni er býlið Háteigur, eldri bæjarhúsin (Litli-Háteigur) vinstra megin og yngra húsið hægra megin. Fjær til vinstri er býlið Klambrar og enn fjær húsaþyrping við Eskihlíðarbæinn. Ljósmynd: Helgi Sigurðsson

Loftmynd af Reykjavík 1946. Hér má sjá býlin Háteig, Sunnuhvol, Klambra, Reykjahlíð og Eskihlíð. Stýrimannaskólinn á Rauðarárholti er til vinstri og Norðurmýri til hægri. Neðst til hægri er herskálahverfið Camp Vulcan og til vinstri er Camp Sheerwood við Háteigsveg. Ljósmynd: Sigurhans E. Vignir

Menningarmerkingar í Reykjavík

Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett upp menningarmerkingar í borgarlandinu. Merkingar á sögulegum minjum og svæðum innan borgarmarka Reykjavíkur gera upplifun borgarbúa og gesta borgarinnar ánægjulegri auk þess að veita fræðslu um sögu höfuðborgarinnar. Á skiltunum má finna fróðleik um mannlíf, sögu, list og bókmenntir sem tengjast viðkomandi stað, ásamt myndefni. Eftirfarandi upplýsingar má finna á skilti við Austurvöll. Texti og myndir: Borgarsögusafn Reykjavíkur. Sjá nánar á www.borgarsogusafn.is