Mikines – Kjarvalsstaðir

Kjarvalsstaðir .26. janúar – 6. apríl 2008

Þessi sýning á verkum færeyska málarans Sámel Joensen-Mikines mun samstanda af 40-50 landslagsmyndum og mannamyndum og spanna allan listamannsferil hans.

Mikines hefur verið kallaður faðir Færeyskrar málaralistar. Hann var fyrstur færeyskra málara til að hafa myndlist að atvinnu og fyrstur að hljóta viðurkenningu fyrir list sína á erlendri grund. Staða hans sem brautryðjanda og fyrirmynd yngri listamanna er svipuð og staða Kjarvals í íslenskri myndlist. Þetta er fyrsta sýning á verkum Mikines hér á landi síðan 1961, en þá sýndi hann í Bogasal.

Sýningarstjóri: Aðalsteinn Ingólfsson

mikanes_faroese-dance1-1944mikanesartmuseummikanesbildeSAMTÍMALISTIN OG SAMKENNDIN
Hugleiðing um Mikines og færeyska myndlist

mikines-kjarvalsstadirÞað er rétt, eins og Bárður Jákupsson hefur oftsinnis tekið fram í skrifum sínum um myndlist, að það er til lítils gagns að ræða stefnur og strauma þegar færeysk myndlist er annars vegar. Hún er sér á parti, sui generis, verður til löngu eftir að aðrar Evrópuþjóðir hafa tekið út myndlistarlegan þroska, í einangruðu og fámennu menningarsamfélagi langt frá svokölluðum þungamiðjum nútímalegrar myndlistar. Þegar myndlistin er loksins orðin að veruleika í landinu, ekki síst fyrir tilstilli Sámals Joensen Mikines, er stöðugt fyrir hendi verulegur þrýstingur á listamennina frá því fámenna og íhaldsama samfélagi sem hún er sprottin upp úr að koma til móts við hugmyndir þess um æskilegt útlit og hlutverk hennar. Þær hugmyndir voru að stórum hluta mótaðar af þeirri myndlist sem færeyskt menningarsamfélag þekkti best, nefnilega 19 aldar danskri myndlist.
Mikannes_pilot-whale-killing1-1942Mikines tók tillit til þessa; til að mynda forðaðist hann að mála nektarmyndir, þar sem hann vissi að hann gæti aldrei sýnt þær eða selt í Þórshöfn. Og fyrst við erum að tala um þolmörk menningarsamfélags, þá er álitamál hvort abstraktlist hefur nokkurn tímann skotið rótum í Færeyjum. Í mínum augum eru stórbrotin málverk Ingálvs av Reyni landslags-eða mannlífsmyndir í æðra veldi, ekki útlistanir fullkomlega óhlutbundins veruleika.
Saga og aðstæður hafa því sett færeyskum myndlistarmönnum ákveðnar hömlur, beint þeim inn á braut hlutlægrar málaralistar, þar sem myndefnið er ýmist mannlíf eða landslag í Færeyjum. Glæsilegur árangur þeirra á síðustu áratugum er að þakka því hvernig þeir hafa snúið þessum aðstæðum sér í hag. Meðvitað eða ómeðvitað hafa þeir virt þessar hömlur, um leið og þeir hafa kappkostað að reyna á þanþol þeirra, kafa sífellt dýpra í myndefni sitt, brjóta það til mergjar uns eftir stendur hreinn og tær listrænn kjarni þess.
Miknanes_at-the-deathbed1-1940Það er til að mynda meiriháttar upplifun fyrir auga og sinni að gaumgæfa óteljandi tilbrigði Mikines um litla þorpið úti á Mykines-eyju, þar sem hann er fæddur og uppalinn, skoða hvernig listamaðurinn fer út á ystu mörk í túlkun sinni á staðsetningu, umfangi og litbrigðum húsanna í kvosinni, án þess þó að segja nokkurn tímann skilið við veruleika hlutanna. Markmið hans er samþjöppun merkingarinnar, ekki dreifing hennar. Ég bendi sérstaklega á nokkur málverk frá árunum 1955-61 í eigu Føroya banka. Sérhvert þessara málverka birtir okkur nýja sýn á myndefnið. Hér lagði Mikines grunn sem eftirkomendur hans í listinni hafa byggt á.
Miknanes_view-from-mykines-islet1-1959Þessi viðleitni færeyskra listamanna hefur verið kennd við expressjónisma, sem er ekki óeðlilegt, þar sem hún er iðulega átakamikil, dramatísk, og knúin áfram af miklum persónulegum tilfinningum.
Og þar sem fyrstu færeysku listamennirnir áttu sér ekki bakhjarl í lifandi hefð, voru þeir allsendir óhræddir við að nýta sér það sem gagnaðist þeim úr heimslistinni, ekki síst myndlist sem gerð var á svipuðum forsendum og þeirra eigin. Sömuleiðis var ekkert sem sagði þeim að þeir ættu að vera sjálfum sér samkvæmir.
Hvorttveggja á við um Mikines. Samkennd hans með nokkrum þekktum listamönnum úti í heimi var slík að fyrir kom að hann yfirtók myndsýn þeirra.. Til dæmis var aðdáun hans á Edvard Munch skilyrðislaus, fyrir honum var norski listjöfurinn ekki bara hið “mikla myndskáld”  20stu aldar, heldur höfðu þeir báðir alist upp í skugga “hvíta dauðans”, verið ólánsamir í ástarmálum og leitað sér huggunar í drykkjuskap.
Mikanesships-leaving-harbour_1937-1938Þegar Mikines endurskapar endurminningar sínar frá dauðastríði ættingja sinna heima á Mykines-eyju, þá gerir hann það í sama “dúr” og Munch,  þegar hann segir frá dauða ungrar systur sinnar. Ástarbríma þeirra Elinborgar Lützen kýs hann einnig að sjá með augum Munchs, sjá málverkið Kvöld (1940-41), sömuleiðis er það ljósmettað Vorið eftir Munch í Háskólanum í Osló sem kemur upp í huga Mikines þegar hann þarf að koma til skila næstum yfirskilvitlegri náttúruinnlifun á árunum eftir síðari heimstyrjöld.
Annar listamaður sem hafði afgerandi þýðingu fyrir Mikines var franski rómantíkerinn Eugéne Delacroix (1798-1893), en honum kynntist hann í Parísarferð sinni 1937. Eitt málverk eftir Delacroix varð honum sérstaklega minnistætt, nefnilega Bátur Dantes (1822), svo mjög að það setti mark sitt á nánast allar myndir af bátum og grindardrápi sem hann gerði eftir það.
miknnes_hvalirBátur Dantes sýnir skáldin Virgilíus og Dante, ásamt bátsmanninum Karon, á leið yfir ólgandi fljótið Styx; allt um kring svamla glataðar sálir og reyna ýmist að komast upp í bátinn eða höfða til samúðar farþeganna. Mikines yfirfærir þessa myndsýn á grindardrápið, þar sem deyjandi hvalirnir ólmast í blóðrauðu löðrinu kringum bátana. Og þegar hann þarf að túlka taktfast samspil hárbeittra lensanna í höndum færeyskra sjómanna, leitar hann á náðir Mykines-eyjuEndurreisnarmálarans Paolos Uccello (1396-1475), sem málaði frægar bardagamyndir þar sem spjót og lensur koma við sögu. Enda kannski ekki um mörg nýtileg fordæmi fyrir slíkum uppákomum að ræða í samtímalistinni.
Óhjákvæmilega skipti dönsk myndlist Mikines töluverðu máli við upphaf ferils hans í Kaupmannahöfn, enda þekkti hann þá ekki aðra myndlist nema af bókum. Þar valdi hann sér fyrirmyndir sem hentuðu markmiðum hans á hverjum tíma. Til að mynda hafði kennari hans, Ejnar Nielsen, mikla þýðingu fyrir Mikines framan af, ekki síst vegna harmrænnar listsýnar sinnar. Fyrstu myndir Mikines um sorg og dauða eru unnar undir merkjum hans. Hins vegar sótti Mikines nánast ekkert til annars  kennara síns við Akademíið, Aksels Jörgensen, en þjóðfélagsádeilur hans hafa líklega ekki höfðað til hins íhaldsama færeyska sveitapilts.
sjmikines.landVið upphaf fimmta áratugarins, þegar listsýn Mikines var fullmótuð, fækkar tilvísunum í danska myndlistarmenn, jafnvel þótt hann væri þá í nánum tengslum við svokallaða Decembrista, stóran hóp danskra listmálara. Þó nýtir hann sér ýmislegt úr stökum verkum eldri listamanna, til dæmis Önnu Ancher; jafnvel er eins og síðari mannamyndir Vilhelms Lundstrøms hafi haft einhver áhrif á hann (sjá t.d. Kringum dánarbeðið, 1940, Sparisjóðurinn Eik). Þetta er á þeim árum sem Mikines er með allan hugann við færeysk myndefni.
Síðustu æviárin, þegar Mikines dró úr Færeyjaferðum og hóf þess í stað á mála Noregi og Danmörku, fyrst og fremst á Borgundarhólmi ( einnig eru heimildir um myndir undir íslenskum áhrifum, málaðar í kjölfar hingaðkomu listamannsins 1961), þá lagar hann sig heilshugar að danskri málarahefð, rétt eins og hann yfirtók myndsýn Munchs forðum daga.
Á Borgundarhólmi hóf hann að mála miðsumarnæturbálkesti í anda Borgundarhólmsmálarans þekkta, Olufs Høst, sjá t.d. Bálköstur á Borgunarhólmi, 1966, (Listasafn Færeyja). Auk þess gerir hann fjölmörg tilbrigði um annað þekkt danskt viðfangsefni, sólarlagsmyndir Jens Søndergaards, sem sýna einmana fólk á ströndinni andspænis ofurvíðáttunum og eilífðinni. Bent Irve, einn helsti áhugamaður um myndlist Mikines í Danmörku, lítur á þessar myndir sem hnignunarmerki, örvæntingarfullar tilraunir listamannsins til að endurnýja sig.
sjmikines.postRétt er að þetta eru ekki frumlegustu myndir sem eftir Mikines liggja. En birtist ekki líka í þeim einn höfuðkostur listamannsins, ofurviðkvæmni hans, hvernig hann tók inn á sig allt sem henti hann, hvort sem er í listinni eða lífinu og hvar sem hann var staddur?
Og þegar öllu er á botninn hvolft er þessi ofurviðkvæmni, eins þungbær og hún reyndist  Mikines persónulega, undirstaða þess ríka skilnings sem gegnsýrir öll helstu verk hans á því hvað það þýddi – og þýðir kannski enn – að vera Færeyingur í brimróti nútímans.
Aðalsteinn Ingólfsson

 

Sámal Joensen Mikines – CV – Sámal Joensen Mikines – Æviágrip

1906 –  Fæddur Sámal Elias Frederik Joensen á Mykines-eyju þann 23. febrúar, elstur sex barna Jóhannesar Frederik Joensen, kóngsbónda, og Önnu Katrínar, konu hans.
1923 – Sendur til Danmerkur til að læra á fiðlu; fær húðsjúkdóminn psoriasis fyrsta sinni.
1924 – Tekst ekki að verða sér úti um kennaramenntun í Þórshöfn; hittir umflakkandi sænskan fuglamálara, William Gislander, sem vekur áhuga hans á málaralist.
1927 – Tekur í fyrsta sinn þátt í listsýningu í Þórshöfn, ásamt með William Heinesen og Jákup Olsen. Samneyti við skáld og fræðimenn. Janus Kamban, síðar myndhöggvari, sá sýninguna og hreifst af verkunum.
1928 – Önnur sýning þeirra þremenninga, hlýtur styrk til að nema málaralist við Konunglega akademíið í Kaupmannahöfn. Kennari hans fyrstu árin er Ejnar Nielsen. Þátttakandi í líflegum samkomum danskra og færeyskra listamannefna.Vinfengi við Henry Heerup.
1930 – Tvo systkina hans deyja úr berklum. Aksel Jørgensen verður kennari hans við Akademíið. Meðal skólafélaga hans þar er Jón Engilberts. Málar sumarlangt í Færeyjum fyrsta sinni. Þjáður af psoriasis.
1931 – Heldur fyrstu sýningu sína í Kaupmannahöfn. Verk eftir hann er að finna á Haustsýningu danskra listamanna. Fer að kalla sig Joensen-Mikines eða Mikines.
1932-33 – Lýkur námi við Akademíið og málar fjölda mynda af landslagi og framámönnum í Færeyjum. Fenginn til að mála altaristöflu á Fugloy. Gerir fyrstu drög að stórmyndinni Heimferð eftir útför.
1934 – Heldur fyrstu stóru einkasýningu sína í Þórshöfn. Níu sjómenn frá Mykines-eyju farast í stórviðri á Íslandsmiðum. Faðir deyr úr berklum.
1935 – Málar fyrstu útgáfu af Heimferð eftir útför og Portrett af konu frá Mykines-eyju.
1936 – Illa haldinn af psoriasis-sjúkdómnum um margra mánaða skeið, verður lítið úr verki.
1937 – Sýnir Heimferð eftir  útför á Vorsýningunni í Charlottenborg og hlýtur nokkur verðlaun og ferðastyrk. Ferðast til Bergen, Oslóar, Gautaborgar, Stokkhólms, Kaupmannahafnar og loks til Parísar; þar sem hann dvelur um þriggja vikna skeið. Hefur mestan áhuga á verkum Munchs, Delacroix og El Grecos.
1938 – Sýnir bæði í Þórshöfn og Kaupmannahöfn. Tekur saman við Elinborgu Lützen og þau flytjast til Kaupmannahafnar. Hlýtur styrki og aðrar viðurkenningar í Danmörku. Kynni af  Sigurjóni Ólafssyni, Svavari Guðnasyni og Sveini Þórarinssyni.
1940 – Verður innlyksa í Danmörku þegar Bretar hernema Færeyjar, ásamt nokkrum öðrum færeyskum lista-og menntamönnum. Málar Kvöld og Við dánarbeðið (í eigu sparisjóðsins Eik)
1941 – Sýnir víða í Danmörku, gengur í listamannasamtökin Decembristerne og tekur þátt í starfsemi nýstofnaðs Listafélags Færeyja, sem hefur að markmiði að leggja grunn að færeysku þjóðlistasafni. Fyrsta verkið sem félagið kaupir er verk hans sjálfs, Morgunn (Listasafn Færeyja).
1942 – Málar í fyrsta sinn mynd af grindardrápi.
1944 – Sýnir með Decembristerne, þ.á.m. lykilverk á borð við Færeyskan dans og Morgunsól. Heldur áfram að mála grindardráp. Giftist Elinborgu Lützen.
1945 – Sýnir og selur vel í Danmörku, auk þess sem hann hlýtur rausnarlega styrki. Tekur fyrsta skip til Færeyja að loknu hernámi ásamt Elinborgu Lützen. Sest að í Þórshöfn.
1946 – Er vændur um að hafa verið hallur undir nasista á Kaupmannahafnarárum sínum og Decembristerne setja hann í þriggja ára sýningarbann. Stór sýning á verkum hans, nýjum og gömlum, haldin í Þórshöfn. Ákveður að hverfa ekki aftur til Danmerkur að sinni. Þjáður af psoriasis um margra vikna skeið. Kynnist Ingálvi af Reyni.
1948 – Stór sýning á verkum hans í Þórshöfn.
1949 – Áformar að byggja sér heimili og vinnustofu í Færeyjum, en er tekinn í sátt af  félögum sínum í Decembristerne og fær boð um að taka þátt í sýningu þeirra í Danmörku.
Málar Portrett af Guttormi Eysturoy.
1950 – Áformar enn að reisa sér hús, nú á Mykines-eyju, en leggur þau áform til hliðar af óþekktum ástæðum. Gamall kennari hans, Ejnar Nielsen, kemur í heimsókn. Málar margar af þekktustu myndum sínum, jafnt útfararmyndir sem landslagsmyndir. Þekktust þeirra er sennilega Norðanvindur (Listasafn Færeyja).
1950 – Sýnir enn í Þórshöfn. Heiðurslaun til færeyskra listamanna á dönskum fjárlögum í fyrsta sinn, og falla þau í skaut Mikinesi og nokkrum starfsbræðra hans.
1952 – Stór sýning í Þórshöfn, opinber innkaup og verkefni. Skilnaður hans og Elinborgar Lützen. Sest aftur að í Kaupmannahöfn.
1953 – Sest að í Rødøvre, tekur þátt í sýningum Decembristerne og hlýtur veglegan starfsstyrk þeirra. Þjáður af psoriasis.
1954 – Gengur að eiga Karen Nielsen, sem er fráskilin hjúkrunarkona með eina dóttur. Sest að í háhýsi við Brøndbyøster- torg. Sýningar með Decembristerne vítt og breitt um Danmörku.
1955 – Málar Póstbátur (Brottför).
1956 – Þau Karen eignast soninn Kára. Vinfengi við óperusöngvarann Kim Borg. Margar sýningar og viðurkenningar. Þjáður af psoriasis.
1957 – Dvelur í Kaupmannahöfn vetrarmánuði en í Færeyjum á sumrin. Boðsferð til Parísar, þar sem hann fer með konu sína í Louvre-safnið til að sýna henni eina mynd, Bát Dantes eftir Delacroix.
1959 – Illa haldinn af psoriasis um nokkurra mánaða skeið. Málar með Ingálvi av Reyni á Mykines-eyju. Stór og afar vinsæl sýning í Þórshöfn. Málverkasölur gera þeim hjónum kleift að leigja sér stóra íbúð með áfastri vinnustofu á besta stað í Kaupmannahöfn.
1960 – Illa haldinn af psoriasis og áfengissýki mestallt árið.
1961 – Sumardvöl utan Færeyja í fyrsta sinn; dvelur með fjölskyldu sinni í Borgundarhólmi, þar sem hann kynnist Oluf Høst. Áhrifa frá Høst og Jens Søndergaard gætir í verkum hans. Ferðast með Karen til Reykjavíkur í tilefni af samsýningu færeyskra listamanna í Listasafni Íslands. Pólitískar deilur um notkun danska fánans á opnunardegi sýningarinnar. Sýningin hefur afgerandi áhrif á myndlist Jóhannesar Geirs.
1962– Málar alfarið í Danmörku.
1963 – Leigir vinnustofu Ejnars Nielsen og málar þar drög að altaristöflu fyrir Kirkjuböur. Dvelur nokkrar vikur á Mykines-eyju, milli þess sem hann er illa haldinn af psoriasis og áfengissýki.
1964-65 – Málar og sýnir bæði í Færeyjum og Danmörku.
1966-68 – Illa haldinn af psoriasis og áfengissýki. Hlýtur ýmislegan heiður bæði frá færeyskum og dönskum yfirvöldum.
1969 – Dvelur sumarlangt með fjölskyldu sinni í Borgundarhólmi; verður undir holskeflu við ströndina og er nærri drukknaður, en er lífgaður við, of seint að margra mati. Náði sér aldrei til fullnustu eftir þetta slys.
1970-72 – Óvinnufær að mestu, en verk hans sýnd víða um Danmörku og annars staðar.
1972 – Málar síðusta málverk sitt.
1973 – 79 – Á hæli og óvinnufær til dauðadags. Skilnaður hans og Karen, sem heldur áfram góðu sambandi við hann.
1979 – Lést í Bispebjerg spítala í Kaupmannahöfn 21. september.

FORMÁLI OG ÞAKKARORÐ

Sámal Joensen-Mikines hefur verið kallaður faðir færeyskrar myndlistar. Hann var fyrstur færeyskra málara til að hafa myndlist að atvinnu og fyrstur að hljóta viðurkenningu fyrir list sína á erlendri grund. Staða hans sem brautryðjanda og fyrirmynd yngri listamanna hefur stundum verið líkt við stöðu Kjarvals í íslenskri myndlist. Báðir höfðu þessir stórbrotnu listamenn djúp tengsl við náttúru og lifnaðarhætti hvor í sínu landi, og báðir hafa þeir haft serve.mykines2006002áhrif á hvernig eftirkomendur þeirra  umhverfi sitt. Það er því löngu tímabært að kynna Mikines á Íslandi og Kjarval í Færeyjum. Þetta er markmið okkar. Um leið og stór yfirlitssýning á verkum Mikines er sett upp á Kjarvalsstöðum fara málverk eftir Kjarval úr safneign Listasafns Reykjavíkur á sýningu í Listasafni Færeyja í Þórshöfn.

Mikines tók þátt í samsýningu færeyskra listamanna í Reykjavík 1961 en nú er í fyrsta skipti gerð grein fyrir öllum ferli hans hér á landi. Á sýningunni eru um 50 málverk og spannar hún hálfrar aldar tímabil. Fyrsta verkið var málað 1928, um það leyti sem Mikines hóf nám við Konunglega Akademíið í Kaupmannahöfn 22 ára gamall og það síðasta var málað við lok ferils hans 1971 en eftir það var hann að mestu óvinnufær vegna sjúkleika og slysfara..

sjmikines.grindÞað eru margir sem hafa lagt hönd á plóginn við undirbúning sýninganna. Fyrstum vil ég þakka Kjartani Magnússyni, fyrrverandi formanni Menningar- og ferðamálaráðs, fyrir stuðning hans og hvatningu. Eiður Guðnason, aðalræðismaður Íslands í Færeyjum, hefur lagt þessum menningarsamskiptum Íslands og Færeyja lið sitt og greitt fyrir þeim í hvívetna. Forstöðumaður Listasafns Færeyja, Helgi Fossádalur, hefur verið helsti samstarfmaður minn í Færeyjum og án hans liðsinnis hefðu sýningarnar ekki orðið að veruleika. Einnig vil ég þakka Bárði Jákupssyni, helsta sérfræðinga Færeyinga um Mikines, fyrir framlag hans til þessarar bókar. Síðast en ekki síst þakka ég sýningarstjóranum Aðalsteini Ingólfssyni fyrir gefa þessu yfirliti yfir feril Mikines skýra stefnu. Sýningin kemur í kjölfar stórrar bókar um Mikines sem Aðalsteinn skrifaði og Nesútgáfan gaf út nýverið og njótum við góðs af mikilli rannsóknarvinnu hans á list Mikines.

Að lokum vil ég nota þetta tækifæri til að þakka Landsbankanum, sem er aðal bakhjarl sýningarinnar, fyrir rausnarlegan stuðning. Samskip studdi sýninguna með flutningi listaverkanna til landsins og verka Kjarvals til Færeyja og kunnum við þeim þakkir fyrir það.

Hafþór Yngvason

Safnstjóri Listasafns Reykjavíkur