Héðan og þaðan – Kristján Steingrímur

BERG Contemporary   Héðan og þaðan 

 Nú opnar ný sýning hjá okkur eftir Kristján Steingrím á laugardag klukkan 17, en þar frumsýnir hann ný verk þar sem hann mylur sjálfur og gerir tilraunir með leir og jarðveg víðsvegar að úr heiminum, héðan og þaðan, sem er einmitt líka titill sýningarinnar. Úr jarðefnunum býr hann svo til sína eigin málningu, og öðlast efniviðurinn þannig nýtt táknrænt hlutverk og fagurfræðilega merkingu. Lesa má frekar um inntak sýningarinnar í sýningartexta Æsu Sigurjónsdóttur, auk þess sem ég set mynd af einu verkinu, sem ber titilinn Blátt líf og er frá 2022.

 
Kristján Kristján Steingrímur er fæddur á Akureyri 1957. Hann stundaði nám við nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1977 til 1981 og frá árinu 1983 við Listaháskólann í Hamborg þaðan sem hann útskrifaðist 1987. Frá því að Kristján lauk námi hefur hann unnið að listsköpun, haldið og tekið þátt í fjölda sýninga bæði í söfnum og galleríum. Hann hefur jafnframt sinnt kennslu og ýmsum störfum á sviði myndlistar. Kristján býr og starfar á Seltjarnanesi.
Hlekkur á facebook viðburð: 

 

Ummerki mannaldar í litbrigðum jarðarinnar

Steingrátt, okkurgult, ryðrautt, – jarðefnin í málverkum Kristjáns Steingríms minna á að listamenn hafa gert tilraunir með leir og steinefni frá örófi alda. Elstu hellamálarar notuðu okkur, umber, sienna, manganese og kaolin. Þeir muldu steininn og blönduðu jarðveg með

feiti og öðrum lífrænum bindiefnum til að festa litinn á flötinn. Litirnir sem Kristján blandar eru gerðir með svipuðum aðferðum. Þegar þeir birtast þá öðlast þeir táknrænt hlutverk og fagurfræðilega merkingu, því málverk Kristjáns vísa í ákveðna staði, heiti, sem búa yfir einstakri birtu, jafnvel töfraljóma í huga áhorfenda: Námaskarð, Seyðishólar, Sólheimajökull, Rauðisandur, Betlehem, Carmel, Omaha Beach, Sienna og Bordeux.

En þrátt fyrir að litirnir sem hann skapar úr jarðefnunum byggi á löngu ferli sem hefst með sýnatöku, oft á framandi slóðum, þá snúast rannsóknir hans hvorki um ferðalög, jarðfræði, né efnafræði. Hins vegar mætti tengja þær staðfræði eða kortlagningu, jafnvel við einskonar leit að erfðafræði þeirra svæða sem hann heimsækir. Því hugsanlega býr jarðvegurinn sem hann safnar á þessum ólíku stöðum yfir líffræðilegri auðkenningu? Gulur sandurinn á Omaha Beach, geymir enn ummerki mannskæðrar lokaorustu á sögulegu átakasvæði síðari heimstyrjaldar, en hvaða leyndarmál geymir jarðvegurinn í Betlehem?

Þessi huglæga kortlagning á jarðvegi snýst þó ekki eingöngu um staði og orð á landakorti, því Kristján malar líka sýni úr loftsteinum og býr til úr þeim liti annars heims sem líkjast samt okkar. Mannöldin eða mannskepnutimabilið er stutt í samhengi jarðsögunnar og myndunartíma sólkerfisins. Plánetan jörð er hluti af stærri heild og loftsteinar, geimörður og önnur himinfyrirbæri, búa yfir sömu efnasamböndum, bergi og málmum, og þeir steinar sem myndast á jörðu niðri. Þannig skarast mankynssagan, heimsmyndin og lífríkið í viðfangsefnum Kristjáns. Hann bendir á eilífa hringrás efnisins og býður áhorfandanum að snúa tvíhyggjusýn á haus. Því um leið og horft er á jarðlitina frá sjónarhorni sem kennt hefur við meira – en -mennskt, þá mætti hugsanlega leggja drög að annars konar litafræði en þeirri sem byggir á skynjun mannsins og menningarlegri túlkun hans á táknum litanna. Myndi sú litafræði byggja á gerendavirkni  efnisveruleikans? Hugsanlega á einskonar djúpri vistfræði sem reist á þeirri hugmynd að maðurinn sé hluti stærra vistkerfis, standi jafnfætis öðrum verum, lifandi jafnt sem líflausum, og hafi því engan rétt til að ganga á lífríkið á þann hátt sem verið hefur. Þannig varpa tilraunir Kristjáns Steingríms fram spurningum um mannmiðaða litafræði listarinnar og rómantísk flokkunarkerfi hennar.

Æsa Sigurjónsdóttir

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0